Draumfarir

Mig dreymir aldrei neitt. Þ.e.a.s. ég man aldrei drauma nema þá bara einhverja samhengislausa vitleysu. Sálan sagði að ég skyldi samt reyna að leggja drauma mína á minnið og ég hef virkilega staðið mig vel í því að rifja þá upp um leið og ég vakna.

Mig hefur sumsé dreymt heilmikið síðustu vikuna.
-Eina nóttina dreymdi mig 3 ryksugur. Það var nóttina eftir að sameignarryksugan kom úr viðgerð.
-Aðra nótt dreymdi mig að bróðir minn gæfi mér gamaldags rakhníf sem hann hafði keypt á e-bay. Við skiptumst aldrei á gjöfum en samt varð ég ekkert hissa. Kvöldið áður höfðum við einmitt hangið á e-bay í 2 amk. tíma.
-Svo dreymdi mig að ég væri í lyftu með manni sem ég veit ekki hver er. Mig langaði að prófa að drepa mann svo ég ýtti á takka nr 1 sem ég vissi að var dulbúin geislabyssa. Maðurinn dó og ég fór út úr lyftunni. Rétt á eftir fékk ég sms frá lögreglunni þar sem ég var spurð hvort ég ætti aðild að dauða mannsins. Ég svaraði „nei“.
-Eina nóttina dreymdi mig að Spúnkhildur rétti mér fullan kassa af ræstingavörum og bæði mig að þrífa Ölstofuna.
-Eitt kvöldið dottaði ég út frá bók og þá dreymdi mig að ég tæki pizzu sem pizzasendill hefði lagt frá sér í misgripum fyrir skjalatöskuna mína (sem ég hef ekki notað í 20 ár). Ég fór með hana inn og sá þá að einhver var að ryksuga sameignina. (Þess má geta að ég vaknaði við ryksuguna)
-Í nótt dreymdi mig að ég væri að hengja upp þvott.

Er nokkur hissa á því þótt ég leggi drauma mína ekki á minnið?

Stundum finnst mér afskaplega skiljanlegt að karlmenn hafi lítinn áhuga á því sem fram fer í hugarheimi kvenna. Allavega myndi ég ekki nenna að hlusta á drauma mína ef ég væri karlmaður. En mig dreymir nú heldur ekki fiðrildi.

Best er að deila með því að afrita slóðina