Rangur misskilningur

-Mér liggur nú við að halda að hatur þitt á þessum fugli risti ekki eins djúpt og þú vilt vera láta. Allavega getur ekki verið auðveldara að gera þetta með hann nartandi í andlitið á þér, sagði Elías og glotti.

Mér þótti nokkuð að heiðri mínum sem alræmdrar freðýsu vegið.

Svona rétt til að taka af allan vafa þá er langt frá því að ást mín á þessu illfygli hafi aukist. Það er hinsvegar að mörgu leyti praktískt að mála loftið með ástleitinn páfagauk á öxlinni og skulu nú kostir þess tíundaðir.

-Í fyrsta lagi er svo óþolandi að hafa páfagauk skrækjandi í eyrun á sér að maður hreinlega getur ekki misst sig í að dunda við verkið.
-Í öðru lagi er alltaf sá möguleiki fyrir hendi að helvítið þoli ekki málningarlyktina og sniffi sig nógu vankaðan til að hanga í búrinu sínu meiri hluta dagsins.
-Í þriðja lagi má alltaf vona að svífi nógu mikið á hann til að hann missi jafnvægið og detti ofan í málningarbakkann og drukkni.
-Í fjórða lagi er móðir mín í útlöndum og þ.a.l. neyðist ég til þess að finna mér eitthvað til að liggja í dramakasti yfir sjálf næstu dagana. Auðvitað gæti ég heimsótt þunglyndu vinkonu hennar sem er ennþá með sömu stofugardínurnar og fyrir 20 árum, hringt í frænkuna sem stal þjóðbúningnum eða yfirheyrt systur mínar um fjármál þeirra og heilsufar en mér finnst einfaldara að armæðast bara yfir fuglinum.

Það staðfestist semsé hér með að hvorki páfagauksafstyrmið né önnur gæludýr munu hljóta náð fyrir augum mínum, nema þá í þeim tilgangi að nýta þau til svartagaldurs og annars fordæðuháttar.

Best er að deila með því að afrita slóðina