Sem skiptir öllu máli

-Elska ég þig?
-Ætti ég ekki að spyrja þig að því?
-Elska ég þig eins og á að elska?
-Þú ert góður við mig. Mér líður vel með þér.
-En svarar samt ekki spurningunni?
-Drengur sem ég þekki sagði einu sinni að það hversu mikið maður elskar einhvern ráðist af því hversu heitt maður þráir návist hans.
-Hann á við að ástin sé eigingjörn?
-Hvað heldur þú um það?

-Þráir þú návist mína?
-Heldurðu?
-Þú hefur samt ekki beðið mig að hætta við að fara.
-Glætan að ég bæði þig um það. Hvað heldurðu að ég sé? Ef þú værir að fara í djammferð kannski en ekkert í veröldinni er mikilvægara en menntun Elías af því að me…
-…menntun er það eina sem ekki er hægt að taka frá þér.
-Nú hef ég sagt það svona oft?
-Nei, bara einu sinni.
-Þú hlustar á það sem ég segi?
-Svo langt sem það nær. Þegar það sem þú segir skiptir máli. Gæti ekki lært spekina úr Einari Ben utan að til að bjarga lífi mínu þótt þú tönnslist á honum öllum stundum.
-Þú elskar mig. Svo langt sem það nær.

-Elías. Þú hefur ekki heldur beðið mig að koma með þér.
-Ætti ég að gera það? Ætti ég að biðja þig að fara frá drengjunum þínum? Ætti ég að biðja þig að hlaupa frá draumnum um eigið fyrirtæki einmitt þegar hann er að verða að veruleika, til þess að gera hvað? Þrífa eða vinna á bar í landi þar sem þú þekkir ekki kjaft? Rífa þig upp eina ferðina enn og hindra þig í að festa rætur? Sorrý elskan en ég veit að þú vilt ekki að ég ljúgi að þér. Sannleikurin er sá að ég þrái návist þína ekki nógu heitt til að vera tilbúinn til að eyðileggja þig.

Elskar maður einhvern nógu heitt til að fórna því sem skiptir máli?
Þráir maður návist hans nógu heitt til að sýna fullkomna eigingirni?

Best er að deila með því að afrita slóðina