Um andúð mína á hinum illa Mammoni

Guðfræðingur nokkur sem iðulega finnur hjá sér hvöt til sérdeilis frumlegrar bókmenntatúlkunar á skrifum mínum, hefur komist að þeirri niðurstöðu að þar sem mér sé tíðrætt um „illsku Mammons“ hljóti ég að vera róttæklingur hinn mesti. Sjálf kannast ég ekki við öll þessi skrif um illsku Mammóns. Ég hef miklu fremur talað um hann sem fremur vingjarnlegan gaur sem ég vil gjarnan eiga næs samskipti við. Að vísu hef ég stöku sinnum talað um illsku Mammons í írónískum stíl.

Ég hef lýst óbeit minni á siðlausum Mammonsdýrkendum. -EKKI á auðsöfnun, heldur á hræsni þeirra sem af tómri efnishyggju níðast á öðrum, ljúga stela eða svíkja af því að þeir komast upp með það. T.d. hef ég lýst mikilli fyrirlitningu á vinnuveitendum sem níðast á erlendu verkafólki. Hinsvegar hef ég einnig skrifað heilmikið um löngun mína til að eiga fyrirtæki, verða rík o.sfv. og hefði ég haldið að það þyrfti nánast fávita til að skilja mig sem svo að ég trúi því virkilega að það sé eitthvað rangt við að langa til að efnast.

Ég tók til gamans saman nokkrar tilvitnanir á bloggið mitt þar sem Mammon er nefndur á nafn. Og nú spyr ég lesendur; bera þessar tilvitnanir vott um að hér sé á ferð róttæklingur, haldinn kristilegri andúð á efnishyggju?

10 febrúar
Getur verið að ást mín á hinum illa Mammóni sé arfgeng?
19. júní
Mammon verður vingjarnlegri við mig með hverju árinu en ég verð endilega að læra að galdra meiri tíma.

7.júlí
Bráðum kemur betri tíð með heilt gróðurhús af peningablómum.
Dýrð sé Mammóni, drottni vorum sem hefur frelsað oss frá yfirdrætti og vísa.

9. júlí
Ég veit ekki alveg hvað Bakkusi finnst um fólk sem nýtir allar helgar til þess að vinna fyrir sjálft sig og fagnar ekki einu sinni þótt örlögin neyði það til að sniffa en hann Mammón minn er allavega ánægður með mig.

1. ágúst
Hinn illi Mammon hefur lagt blessun sína yfir oss, dýrð sé honum.

8. ágúst
Til að kóróna allt saman kom svo Spúnkhildur svífandi inn í dag með þær fréttir að æðsti postuli Mammons hjá útibúi hennar hafi miskunnað sig yfir okkur og samþykkt náðunarbeiðni hennar.