Guðfræðimennska

Mér finnst gaman að fá að fylgjast með biblíulestri Varríusar. Að teknu tilliti til þess hve mikil áhrif þetta bókasafn hefur haft á menningu okkar, má telja furðulegt hversu margar frásagnir þess eru lítt þekktar meðal almennings.

Ég er ekki sérlega biblíufróð sjálf en það sem ég þekki af biblíunni og sögu kristninnar dugar mér allavega til að vilja fyrir enga muni kenna mig við kristindóm af neinu tagi. Þar fyrir finnst mér biblían áhugaverð og þá ekki síður þau undur sem fram fara í höfðum þeirra sem segjast trúa á hana.

Það er ekki bara trúarlegi hlutinn sem vekur forvitni mína. Mér finnst t.d. hugmyndir margra guðfræðinga um fræðimennsku rannsóknarefni út af fyrir sig. Ég hef t.d lesið nokkrar greinar eftir guðfræðinga sem gagnrýna aðferðir Eriks von Daaniken og röksemdir hans fyrir hugmyndum sínum um guðina sem geimfara. Allt ágætar greinar þar sem menn benda á augljósa vankanta á verkum Daanikens.

Það sem mér finnst svo undarlegt við kýrhaus guðfræðinga er eimitt það að klúður Eriks von Daaniken -sem felst í því að taka eingöngu þá texta biblíunnar sem henta kenningu hans en hunsa hina, er nákvæmlega sama aðferðin og kristnir menn nota til að „sanna“ hugmyndir sínar um biblíuna, hvort sem um er að ræða siðaboðskap hennar eða sagnfræði.

Er það ekki skrýtið?

Best er að deila með því að afrita slóðina