Svar til Torfa

Það sem þú lest úr skrifum mínum kemur mér iðulega á óvart Torfi. Kannski er það ekki að undra. Þegar allt kemur til alls ertu sérfræðingur í bók sem hefð er fyrir að túlka bara eins og hvur og einn fílar hverju sinni. Samt er það stundum langsótt.

Mér er t.d. hulin ráðgáta hvernig þér dettur í hug að lesa „biturð“ út úr fremur eitruðu skoti á konu sem af fjárhagslegum ástæðum viðheldur sambandi sem einkennist af kúgun og óheiðarleika. Vissulega er írónía í þeim texta, fyrirlitning, hugsanlega vottar fyrir afbrýði en þar er ekkert að finna sem bendir til þess að ég telji að „lífið fari illa með mig“.

Hinsvegar eru fjölmargir aðrir textar á þessu bloggi sem einkennast af biturð og það er barasta allt í lagi.

Mér er ljóst að biturð, afbrýðisemi, þrá, losti, vanmetakennd, einsemd, ást, hatur, athyglisþörf, blygðun, sjálfsfánægja, auðmýkt, óhamingja, fyrirlitning, frammistöðukvíði. þakklæti og fjölmargar aðrar mannlegar tilfinningar eru almennt álitnar feimnismál. Ég er bara svo heppin að þrátt fyrir að hafa, eins og allt annað fólk, orðið fyrir nokkrum minniháttar áföllum, hefur lífið ekki leikið mig nógu grátt til þess að ég skammist mín fyrir að lifa eðlilegu tilfinningalífi.

Mér finnst ekkert jákvætt við að fela sig bak við falska hamingjugrímu og þykjast ónæmur fyrir sársauka og reiði. Því síður hugnast mér ræfildómur þeirra sem afgreiða ógeðfelldar tilfinningar með drykkju eða öðrum aumingjaskap, hvað þá hræsni þeirra sem afneita þeim. Mér finnst frelsi fólgið í því að viðurkenna tilfinningar og vinna úr þeim, t.d. með því að finna þeim útrás í listrænni tjáningu. Það er ekki alltaf fallegt eða þægilegt en það er líkt því að skera á graftrarkýli.

Tilfinningaleg graftrarkýli hjaðna ekki þótt þú afneitir þeim. Þau bara vaxa inn á við. Og springa þar á endanum. Gröfturinn vellur inn í æðakerfið, veldur sýkingu í hjarta þínu og lifur.

-Og samt geturðu sagt oj þegar náungi þinn kreistir fílapensil á nefi sínu. Það sér nefnilega enginn ógeðið sem grasserar í þér sjálfum.

Best er að deila með því að afrita slóðina