Nokkrar af algengustu lygum hins almenna plebba

Ég er hætt(ur) að reykja.
-Þessi fullyrðing er oft ómarktæk með öllu. Stenst kannski í nokkra daga eða vikur og er þ.a.l. ósönn þar sem „hættur“ merkir að atferlið hafi verið aflagt varanlega.

Drykkja mín/fíniefnaneysla mín bitnar ekki á neinum öðrum.
-Þetta segja nánast allir fíklar. Það er aldrei satt.

Ég myndi aldrei fara illa með þig aftur.
-Lygi, lygi, lygi. Þeir sem fara illa með aðra gera það yfirleitt af fávitahætti en ekki mannvonsku. Fávitaháttur lagast ekki nema með mikilli mannræktarvinnu. Þar af leiðir að sá sem fer illa með þig einu sinni munu að öllum líkindum gera það aftur.

Ég var bara að reyna að hlífa þér.
-Ódýr afsökun og oftast ósönn. Fólk fer á bak við ástvini sína til að komast hjá óþægilegum afleiðingum gjörða sinna fremur en til þess að hlífa þeim sem aldrei hafa beðið um vernd.
Ég hef góða stjórn á fjármálum mínum.
-Fæstir viðurkenna stjórnleysi sitt, þrátt fyrir botnlausar neysluskuldir. Sá sem notar yfirdráttarlán og kreditkort sem eitthvað annað en öryggisventil hefur ekki góða stjórn á fjármálum sínum. Punktur.

Innst inni er ég mjög skipulagður/skipulögð.
-Ég hef aldrei kynnst óreiðumanneskju sem vildi ekki frekar vera með allt á tæru og ótrúlega margir halda þessu fram þrátt fyrir rassvasabókhald og þvott í stofusófanum. Ef þetta „innst inni“ kemur ekki fram í daglegu lífi, þá er skipulagsfærni manns óskhyggja ein.

Börnin vilja frekar vera hjá mér en mömmu sinni.
-Bla. Börn vilja öryggi. Tilbreyting er skemmtileg og þau vilja gott samband við báða foreldra en þau vilja fyrst og síðast búa við þær aðstæður sem þau þekkja best.

Áhugamál mín eru tónlist og lestur góðra bóka.
-Þeir sem hafa engin áhugamál viðurkenna það aldrei. Ef þeir eru spurðir nefna þeir tónlist. Það á ekkert skylt við áhuga að hafa gaman af einhverri tónlist án þess að pæla sérstaklega í henni eða finnast síbylja þægileg. Flestir hafa líka ánægju af því að lesa eina og eina skáldsögu en bókmenntaáhugi er annað og meira en neysla.

Ég vakna svona seint af því að ég er B-maður.
-B-fólk er til en það er sjaldgæft. Oftast er þetta léleg afsökun óstundvísra.

Ég kem þessu í verk um helgina, ég er í eðli mínu skorpumaður.
-Þeir sem koma hlutunum seint og illa í verk eru ekki skorpumenn. Eitt einkenni skorpufólks er einmitt ágætis afköst sem oft fara saman við gott skipulag.

Öllum foreldrum þykir vænt um börnin sín.
-Nei. Sumir (vonandi fáir) foreldrar eru tilfinningalega vangefnir og alls ófærir um að elska nokkuð nema rassgatið á sjálfum sér. Hinsvegar myndi ekkert foreldri viðurkenna að því sé skítsama um börnin sín.

Maður býr náttúrulega að svolítið sérstakri reynslu.
-Ég heyri eitthvað í þessa veruna ekki sjaldnar en vikulega og þessi „sérstaka reynsla“ er yfirleitt bara eitthvað venjulegt. Skilnaður, lesblinda, samtíðni, ættartengsl við krimma eða eitthvað álíka. Fáir sem hafa lifað óvenjulegu lífi sjá ástæðu til að tíunda lífsreynslu sína.

 Mér finnst þú mjög áhugaverð, ég segi það ekki bara til að komast upp á þig.
-Hmmm… Hvað ætli maður sé að hugsa um þegar hann tekur sérstaklega fram að áhugi hans sé ekki kynferðislegur. Myndi nokkur eðlilegur maður undir nokkrum kringumstæðum taka fram að áhugi hans á tilteknum stjórnmálamanni, listamanni eða vísindamanni sé „ekki kynferðislegur“? vísindamanni sé „ekki kynferðislegur“?

Og stóra lygin mín? Hahaha ef þið þekkið mig ekki nógu vel til að vita það hversvegna ætti ég þá að segja ykkur frá því?


Bætt við síðar

Ég átta mig reyndar ekki almennilega á því hversvegna hluti lesenda virðist telja að þessar algengu lygar, (tilhliðranir á sannleikanum eða bara sjálfsblekking), eigi eingöngu við um karla. Þær setningar sem bjóða upp á þá túlkun að þær eigi aðeins við um karla eru tvær. Annarsvegar sú alranga fullyrðing margra helgarpabba (einkum og sér í lagi þeirra sem standa sig illa) að börnin vilji frekar vera hjá þeim en mömmunni. Sjálfsagt eru helgarmömmurnar ekkert skárri. Hinsvegar er það setningin „mér finnst þú í alvörunni áhugaverð“ sem á betur við karla. Kemur það ekki til af því að konur séu almennt áhugasamari um persónuleika þess sem þær vilja sænga hjá, heldur af því að fæstum körlum dettur í hug að konum þyki þeir ekki í alvörunni áhugaverðir og spyrja því ekki um það. Allt annað í þessari upptalningu á jafnt við um bæði kynin.

Best er að deila með því að afrita slóðina