Vanur maður

Óvenjulegt að mæta í Borgarleikhúsið kl 9 að morgni en litli leikaravinur minn bauð mér á skólasýningu í morgun. María, asninn og gjaldkerarnir heitir hún. Í næsta sæti við mitt situr einn lítill. Líklega 5 ára. Vasaútgáfa af Ásgeiri litla og enginn situr við hliðina á honum.

-Sæll. Ertu hérna með systkinum þínum? spyr ég og sest niður.
-Ég er með bróður mínum en hann er að leika í sýningunni, segir sá stutti, alveg ófeiminn.
-Það hlýtur að vera Árni Beinteinn því þú ert mjög líkur Ásgeiri.
-Jú, og ég heiti Ágúst Beinteinn og við heitum alir Beinteinn bræðurnir og líka pabbi okkar, hann heitir líka Árni Beinteinn.
-Jæja, mér finnst gaman að hitta þig. Ég heiti Eva og ég er vinkona Árna bróður þíns.
-Já ég veit og þú ert líka vinkona Ásgeirs og Elínar og ég veit líka hvar þú vinnur. Þú vinnur í Nornabúðinni,
segir hann.
-Það er alveg hárétt hjá þér. En er enginn annar með þér, bara Árni?
-Nei enginn annar, það þarf ekki að passa mig, ég er vanur,
segir hann kotroskinn.
-Já þú hefur auðvitað farið oft í leikhús að sjá Árna bróður þinn
-Já oft, því hann leikur í ótal sýningum,
segir krílið, sem er eiginlega of lítið til að kunna orð eins og ótal, hvað þá að nota þau.
-Svo er ég líka byrjaður í skóla og ég er búinn að vera 62 daga í skólanum, segir hann.
-Það eru margir dagar. Þú ert aldeilis orðinn stór. Ertu þá 6 ára?
-Nei ég er fimm en svo á ég afmæli í desember og Elín á afmæli á jólunum og þá fáum við að brjóta piparkökuhúsið.

Hann lét dæluna ganga þar til sýningin hófst. Eftir það sat hann stilltur eins og mús, sagði ekki orð á meðan á sýningunni stóð en tók undir sönginn í þeim lögum sem hann kunni.

Það er ekki oft sem maður hittir barn sem er nógu agað til að hægt sé að senda það eftirlitslaust á klukkutíma langa leiksýningu en jafnframt nógu frjálslegt og afslappað til að halda uppi samræðum við bláókunnuga manneskju. Ég vil að fest verði í lög að foreldrar þessara barna teljist þjóðareign og að Íslendingum verði bannað að fjölga sér nema hafa mætt á uppeldisnámskeið til þeirra fyrst.

Það var upplifun að hitta Gústa litla en annars var sýningin þrælgóð líka. Alveg með ólíkindum hvað Gunnari Helgasyni og Ragnheiði Hall hefur tekist að ná góðum leik og söng út úr hópi barna og unglinga sem hafa engan fullorðinn með sér á sviðinu. Ég sá nýja hlið á Árna Beinteini, hef bæði heyrt hann leika og syngja áður en mér datt ekki í hug að hann gæti sungið svona vel á harðastökki. Vel gert, virkilega.

Best er að deila með því að afrita slóðina