Gúrk

Ég yrði leiðinlegur sjúklingur. Ég hef verið lasin síðan á fimmtudag og er með a.m.k. jafn mikla geðbólgu og hálsbólgu. Þetta er svona klassískt lasleikaástand, ekki nógu veik til að leyfa mér að leggjast í bælið en líður illa og er allt of slöpp til að ná viðunandi afköstum. Að sjálfsögðu er ég með ljótuna líka. Þrútin í kringum augun og rauð í kringum munn og nef. Sýg upp í nefið og hósta á milli þess sem ég staupa mig á dönskum brjóstdropum.

Heillandi! Ég verð að fara að druslast til að láta tæta úr mér kirtlana en það er aldrei beinlínis hentugur tími til að vera frá vinnu. Það er reyndar dálítill ókostur við að vera í sjálfstæðum rekstri, maður á aldrei frí. (Ekki svo að skilja að ég sé ósátt, ég ætla aldrei framar að vinna undir stjórn annarra.)

Pegasus í útlandinu. Þurfti að fara í reglubundna þjálfun í einhverjum flughermi í Noregi. Ég sakna hans meira en maður á að geta saknað einhvers sem maður hefur ekki þekkt nema í tvo mánuði. Hann er bara búinn að vera eina viku í burtu og við höfum hangið meira og minna á msn allan tímann en ég get samt varla beðið eftir að fá hann heim. Hann kemur á föstudaginn, mér finnst voða langt þangað til. Það er út af fyrir sig ágætt að þessi lasleiki (með tilheyrandi ljótu og leiðinlegheitum) skuli koma upp einmitt á meðan hann er ekki í sjónmáli, maður vill nú helst gefa sæmilega huggulega mynd af sér svona í blábyrjun.

Skrýtið samt. Venulega tek ég því sem mjög alvarlegu viðvörunarmerki ef ég sakna einhvers annars en nánustu ættingja en núna finnst mér það bara eðlilegt.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Gúrk

 1. ————————————

  Ég fór ælandi í vinnuna um daginn og hugsaði einmitt: ókei, þetta er kannski ekki gott, en allt annað er gott við vinnuna mína MÍNA svo ég læt mig hafa þetta. Sem betur fer tókst mér að fela veikindin, kúnnarnir vissu ekki neitt. Ég ætla ekki heldur að vinna undir öðrum aftur.

  Posted by: Kristín | 4.12.2007 | 12:40:01

  —   —   —

  kirtlataka. Úffff. Þú átt alla mína samúð Eva. Ég vona að það gangi betur hjá þér en þegar ég lét rífa þá úr mér og þurfti að gerast sjúklingur þinn í nokkra daga hér árum áður.

  Posted by: Þorkell | 4.12.2007 | 20:17:42

  —   —   —

  Ég sendi batnikveðjur úr Kattlandinu! 🙂 Ég lét rífa úr mér kirtlana fyrir nokkrum árum og það var algerlega hörmulega sárt en þó vel þess virði. Mæli með að þú stílir þó inn á að Pegasus verði á landinu þegar þar að kemur.

  Posted by: Unnur María | 4.12.2007 | 23:43:35

Lokað er á athugasemdir.