Andskot

-Það er eitthvert rugl í bankanum.

Jamm. Auðvitað getur bankastarfsfólk gert mistök. Ég hef lent í því sjálf. Það tók eina mínútu að laga það. Leigjandinn hans pabba míns borgaði ekki leiguna núna um mánaðamótin. Varð ægilega hissa þegar ég hafði samband því hún er með greiðsluþjónustu og innistæðan á reikningnum hennar var svo lág að upphæðin hlaut að hafa farið út. Hún fór inn á netbankann og sá villuna strax. Upphæðin sem hún leggur í reglubundinn sparnað hafði verið tekin tvisvar sinnum og ekki nóg eftir fyrir leigunni. Eitt símtal og mistökin eru leiðrétt.

En þegar fólk heldur því fram dögum saman að það geti ekki borgað skuldirnar sínar út af einhverju óskilgreindu „rugli“ í bankanum, þá þarf maður ekki að vera mannþekkjari til að sjá hvernig málin standa. Það er líka alltaf sama fólkið sem lendir í „rugli“ hjá bankanum. Sannleikurinn er sá að bankinn gerir sjaldan mistök og það er ekki vesen að fá þau leiðrétt.

Ég hef lent í fjárhagsvandræðum sjálf. Aldrei nógu alvarlegum til að lenda á vanskilaskrá eða þurfa að svara óþægilegum símtölum frá lögfræðingum en samt nógu slæmum til að skilja fólk sem ber svona bull fyrir sig. Ég hef horft upp á nána vini og ættingja rambandi á barmi gjaldþrots og fólk sem er í þeirri stöðu hegðar sér iðulega á svipaðan hátt, fyrst hættir það að opna póstinn, svo fer það að reyna að kaupa sér frest með því að ljúga upp mistrúverðugum skýringum. Þar næst hættir það að svara síma. Allt er þetta fullkomlega órökrétt og gerir ekkert nema að auka á vandann en þetta er skiljanlegt.

Fólk sem gerir ekki neitt, vonar bara að hlutirnir reddist af sjálfu sér, er ekki endilega óheiðarlegt. Það er bara örvæntingarfullt og vill komast í gegnum daginn án þess að fá of svæsið kvíðakast til að verða óvinnufært. Allir segja það sama við mig, settu þetta í innheimtu strax. Fyrir mig væri það rökrétt. Ég fengi þá dráttarvexti og það virðist sanngjarnt því ég þarf sjálf að greiða vexti af heimlidinni sem ég tók til að geta staðið við mínar eigin skuldbindingar.

Málið er bara að blessað fólkið er ekki neinir krimmar. Þetta er bara ungt og fátækt fólk sem hefur misreiknað dæmið, gleymt að gera ráð fyrir tryggingunum eða öðrum útgjöldum eða verið í nógu slæmri aðstöðu til að ljúga til um greiðslugetu sína með von um kraftaverk. Allt sem þau segja bendir til þess að þau eigi ekki fyrir þessu og hafi ekki lánstraust. Og vandamálið er að þau eignast enga peninga þótt ég sendi Intrum á þau. Það gæti hinsvegar komið þeim í nógu mikil vandræði til að þau gefist upp.

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Andskot

  1. ———————————————

    Það er nú eiginlega til fyrirmyndar að spyrja viðkomandi fyrst. Það er aldrei að vita nema undantekninginn sanni regluna.

    Posted by: Guðjón Viðar | 5.12.2007 | 11:40:03

    —   —  —

    Jibbýkóla, þau redduðu þessu!

    Posted by: Eva | 5.12.2007 | 15:29:33

    —   —  —

    sko til 🙂

    Posted by: hildigunnur | 6.12.2007 | 11:23:10

     

Lokað er á athugasemdir.