Táknmynd

Walter1
Einhverjum gæti dottið í hug að þetta sé einn af þessum gaurum sem sér um að halda björgunarsveitunum í þjálfun og rjúpnastofninum í lágmarki. Ekki alveg. Þetta er gaurinn sem sækir týndar rjúpnaskyttur og aðra sem hafa lent í ógöngum uppi á fjöllum. Myndin er tekin á Grænlandi en hann vann þar í mörg ár. Byssan er hluti af staðalbúnaði í þyrlum á Grænlandi en það ku víst ekki vera gott grín að sitja uppi með bilaða þyrlu í þarlendum óbyggðum.

Ég er hrifin af þessari mynd af mörgum ástæðum.

-Í fyrsta lagi er myndefnið fagurt og fyrirsætan eins sjálfri sér lík og hún á annað borð verður á myndum. Að vísu er Walter nánast alltaf brosandi, (ég get ekki rifjað upp svipinn á honum frá ungingsárunum nema með brosi) en í nálægð myndavélar kemur fram þessi aðkenning að alvarleika. Eins og hann sé að gæta þess að brosið sleppi ekki út. Ég hef enn ekki séð brosmyndir af honum fullorðnum nema hann sé annaðhvort með hjálm á hausnum eða smábarn í fanginu.

-Í öðru lagi sýnir stellingin og svipurinn mann sem er hrifinn af hlutnum sem hann heldur á en skilgreinir ekki sjálfan sig út frá honum. Hann er ekki á veiðum. Ekki einu sinni í leið í veiðitúr. Hann bara situr sallarólegur og sýnir gripinn. Það er ekkert byssumannslegt við myndina og það er grundvallarmunur á karlmanni sem hefur gaman af tækjum og manni sem er númer eitt byssumaður, jeppakarl eða mótorhjólagæi og númer tíu fjölskyldufaðir og vinur.

-Í þriðja lagi er þetta táknmynd af karlmanni sem hefur dæmigerð strákaáhugamál og er ég svo þakklát fyrir að hafa kynnst manni sem þarf ekki að taka mig á taugum til að staðfesta karlmennsku sína. Hann lítur ekki svo á að það sé mitt hlutverk að næra veiðimannseðlið í honum. Ég þarf ekki að hafa áhyggjur af því að ég sé ekki nógu spennandi ef ég sýni honum kynferðislegan áhuga, elda handa honum eitthvað flóknara en poppkorn eða hef samband við hann að fyrra bragði. Þvert á móti finnst honum þetta allt saman æðislegt og sýnir það svo sannarlega. Ef hann vantar ‘challenge’ getur hann bara fengið útrás í snjóskafli eða drulluflagi. Ef sú ótrúlega staða kemur einhverntíma upp að það dugi ekki til ætla ég að kaupa handa honum byssu. Eða skriðdreka. Ég ætla aldrei, aldrei, aldrei að vera með manni sem er svo óöruggur um karlmennsku sína að ég neyðist til að gera mér upp áhugaleysi til að halda honum volgum.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Táknmynd

 1. ——————————————-

  bravó og bingó!

  svona karlmenn eru til…

  Posted by: baun | 28.11.2007 | 15:38:31

  —   —   —

  Eva mín, augun í þessum manni segja mér að þetta sé góður maður og veistu bara hvað, ég er býsna mannglögg.
  Kveðja og knús til ykkar allra.

  Posted by: Ragna | 29.11.2007 | 23:42:11

  —   —   —

  Jú Eva. Þetta er mjög góð mynd af veiðimanninum. Ég fór að hugsa um, hvort þú leggðir kannski líka stund á skotveiðar. Ef svo er, myndi ég gjarnan vilja sjá mynd af þér með skotvopn og villibráð. Þú myndir taka þig vel út.

  Þetta er frábær síða og gaman að lesa, það sem þú skrifar. Gangi þér vel.

  Posted by: Stefán | 30.11.2007 | 8:55:05

Lokað er á athugasemdir.