Það er ekki vegna skipulagsleysis, kæruleysis eða leti. Ég er bara haldin aðstæðubundinni bókhaldsröskun. Ræð hreinlega ekki við pappír.
Aðstæðubundin bókhaldsröksun er skæður kvilli sem hefur gert margan góðan dreng gjaldþrota og stuðlar að eyðingu regnskóganna þar sem stofnanir og fyrirtæki þurfa að senda endalaust flóð af athugasemdum og ítrekunum til bókhaldsröskunarsjúklinga. Það liggur því í augum uppi að við sem þjáumst af þessum ófögnuði ættum að fá örokubætur, auk þess sem Tryggingastofnun ætti að sjá okkur fyrir ókeypis bókhaldsaðstoð.
Bókarinn minn heldur því reyndar fram að svo fremi sem öllum greiðslum er skilað á réttum tíma og skatturinn, lífeyrissjóðurinn og endurskoðandinn haldi ró sinni, sé óþarfi fyrir mig að kasta upp af kvíða þótt ég finni bunka af pappírum sem ættu að vera löngu komnir til bókarans, uppi á ísskáp. Og svo á ég víst bara að slaka á og láta hana um að koma þessu í lag.
‘Það heitir ekki að vera með allt í rugli þótt maður geri mistök sem breyta nákvæmlega engu’ segir hún og ég myndi sennilega segja það sama við allra aðra en sjálfa mig. Mér skilst líka að venjulegt fólk fari ekki að gráta þótt skilagrein hafi ekki komist til skila heldur bara greiðslan. Fólk á að skæla yfir því að þurfa að útskýra af hverju það borgaði ekki reikningana sína en ekki yfir því að þurfa að svara fyrir það hvern fjandann það var eiginlega að borga. Sjálfri finnst mér fullkomlega rökrétt að fara á límingunum ef ég get ekki svarað sjálfri mér því hvernig greiðsluseðlarnir lentu uppi á ísskáp, eða hvað ég var eiginlega að hugsa þegar ég fyllti út skilagrein og eyddi henni svo þegar ég var búin að borga, í stað þess að ýta á enter til að senda hana inn.
Lóðboltinn bilaði aftur um daginn. Í þetta sinn gerði ég við hann sjálf, með undarlegum afleiðingum. Posinn bilaði líka. Ég gerði við hann sjálf en þegar viðgerð bar ekki viðunandi árangur hringdi ég í Vísa og bað um hjálp. Baðst afsökunar á ónæðinu en starfsmaðurinn horfði á mig eins og ég væri fáviti og spurði hversvegna ég héldi eiginlega að borgaði fyrir posaþjónustu.
Heimska mannanna er stórt vandamál í heiminum. Því miður virðast allir haldnir fáránlegri heimsku á einhverju sviði. Ég held að heimskan í mér búi í mínu innra kontrólfríki. Það er í alvöru talað engin skynsemi í því að þola ekki sjálfum sér að þurfa að treysta á aðra.