Ég held að ég sé frá Júpíter

Ég er að lesa ‘You just don’t understand’ eftir Deborah Tannen.

Ég hef lengi dregið í efa þá kenningu að samskiptavandi kynjanna stafi af því að konur séu frá Venus og karlmenn frá Mars. Ég á nefnilega ekkert erfitt með að setja mig inn í hugsunarhátt Marsbúa (samkvæmt persónuleikaprófum hugsa ég að 53% eins og karlmaður) en þeim tekst samt að hegða sér eins og geimverur. Og ekki eins og þeir séu frá Venus heldur einhverju allt öðru sólkerfi. Ég skil Venusarruglugufuna þótt hún sé þreytandi og á alveg til að sökkva í hana sjálf. Ég ræð alveg við Marsbúann og kannast við durtsháttartilhneigingar hjá sjálfri mér. Ég ætti þessvegna alveg að skilja karlmenn hvort sem þeir eru frá Vensus eða Mars en um leið og ég held að ég sé að átta mig á þeim, kemur í ljós eitthvert fávitaelement sem var útilokað að ég gæti séð fyrir.

Eftir lestur þessarar bókar finnst mér kenningin um Mars og Venus ennþá fjarstæðukenndari. Ég skil ekki hvorttveggja heldur hvorugt og ég á satt að segja erfitt með að gera upp við mig hvort kynið mér finnst heimskara og verr innrætt.

Líklega er það ég sjálf sem er geimvera.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Ég held að ég sé frá Júpíter

 1. ———————————–

  hvað græðir maður á því að mynda sér skoðun á því hvort kynið sé heimskara eða verr innrætt? skil ekki að nokkuð komi út úr því nema pirringur.

  Posted by: baun | 4.08.2008 | 19:22:39

  ———————————–

  Maður græðir auðvitað ekkert á því að mynda sér skoðun á því hvort kynið er nær því að vera handbendi djöfulsins. Maður gæti hins vegar grætt eitthvað á því að komast að því hvað er eiginlega að gerast í kollinum á fólki sem virðist vera frá einhverri allt annarri plánetu en maður sjálfur. Því meira sem ég kynni mér þær hugmyndir, því meira efast ég um að mismunandi hugsunarháttur kynjanna sé skýringin á því hvers vegna flest sambönd eru erfið. Og nú er svo komið að mér finnst þessi meinti munur ekki duga til að útskýra fávitaleg viðbrögð bæði karla og kvenna við öllum mögulegum aðstæðum.

  Ég skil t.d. ekki hversvegna fólk segir ekki bara kurteislega hvað því finnst og hvað það vill, í stað þess að velta sér endalaust upp úr því hvort einhverjum öðrum finnist það óþægilegt eða sé ósammála (eins og mér skilst að konur geri)eða hvort einhver gæti þá kannski áttað sig á því að maður sjálfur sé viðkæmur, hræddur eða reiður (eins og karlar eiga víst að vera voða hræddir um).

  Bæði vitlausari, segi ég.

  Posted by: Eva | 4.08.2008 | 22:44:31

  ———————————–

  já, svei mér þá. bæði vitlausari.

  annars held ég það væri heilladrýgra að tala um hvað sameinar okkur sem fólk, en að rembast við að undirstrika hvað er ólíkt, eins og margar þessar bjánabækur gera. þetta var skefjalaus sleggjudómur, af því að ég hef enga svona bók lesið, bara lesið um þær.

  og auðvitað væri best að fólk segði bara hvað það vill, ef það veit það yfir höfuð.

  Posted by: baun | 5.08.2008 | 0:40:44

  ———————————–

  Kannski eru karlmenn bara svona skynsamir en þeir fatta það fljótlega að það er tímaeyðsla að reyna að skilja konur. Allir karlmenn kannast við „Elskan,er ég feit í þessum kjól“ tegund af spurningu þar sem maður veit að það er sama hvað maður segir, maður er svo steiktur. Meina ,mundu karlmenn virkilega spyrja konu sína svona spurningar ?

  Posted by: Guðjón Viðar | 6.08.2008 | 13:17:28

Lokað er á athugasemdir.