Nóttin var sú ágæt ein

Fyrsta aðfangadag ævi minnar horfði ég ekkert á barnaefnið í sjónvarpinu. Við sváfum frameftir (enda hafði öll nóttin farið í að gera það sem við gerum venjulega síðustu 2 kvöldin fyrir jól) og stoppuðum svo góða stund hjá ömmu Hönnu og afa Bjarna.

Eftir að hafa ekið Hauki í vinnuna komum við aðeins við hjá Sigrúnu með jólagjöf. Við eyðum venjulega áramótunum, eftir mat með þeim. Sigrún spurði hvort við gætum ekki borðað saman að þessu sinni og við bundumst fastmælum um að þau kæmu til okkar á gamlárskvöld. Þá datt henni í hug að við gætum sem best haldið jól saman líka. Hún var byrjuð að elda og þar sem við Darri höfðum eiginlega bara æltað að jóla okkur eitthvað smávegis en bíða með aðalhátíðahöldin þar til Haukur kæmi heim, slógum við til, við gættum þess bara að borða nógu hóflega til að hafa pláss fyrir meira um nóttina. Ég fór heim, sauð kartöflur, henti kjötinu í ofn og stillti á 100 gráður, fór svo til Sigrúnar með nokkra pakka.

Þetta var hið ljúfasta matarboð í góðum félagsskap en ég áttaði mig allt í einu á því að ég hef í rauninni fastari venjur í kringum jól en ég hafði gert mér grein fyrir. Ég verð t.d. alltaf væmin þegar „Í dag er glatt í döprum hjörtum“ brestur á, það skiptir mig máli að faðma strákana á slaginu sex og ég hef útvarpið alltaf stillt á jólamessuna undir borðum. Kannski er þetta galið þar sem ég er trúlaus en ég ólst upp við þessa siði og er alveg tilbúin til að hórast í hverju því sem vekur hátíðlega stemningu. Armæðutónninn í prestinum hrærir í mér nostalgíuna og það hefur ekkert með trú að gera. Hjá Sigrúnu eru þessir siðir ekki viðhafðir svo mér fannst þetta ekki vera jól, þótt væri frábært að vera hjá þeim.

Alltaf verða jólin nú samt fullkomin, þótt eitthvað sé á annan veg en venjulega. Darri sótti Hauk á meðan ég bjó til sósu og brúnaði kartöflur. Jólatónleikar í útvarpinu og á meðan „Í dag er glatt“ hljómaði í eldhúsinu, komu strákarnir mínir heim. Allt nákvæmlega eins og öll hin jólin nema við borðuðum klukkan 12 í stað 6 og frestuðum því að hringja í vini og ættingja, enda reiknuðum við með því að flestir væru komnir í bælið um 2 leytið.

Afi og amma komu í mat til okkar í hádeginu, hangikjöt með kartöflumúss og laufabrauði eins og hvern einasta jóladag sem ég man eftir og seinnipartinn þegar ég var orðin ein (Darri fór heim með þeim og Haukur að vinna) tók ég fram bókina sem Alexander gaf mér í jólagjöf en grjótsofnaði á annarri síðu. Það segir miklu meira um ástandið á mér en bókina sem virðist hin skemmtilegasta. Framundan eru 5 dagar sem ég ætla að nota til að gera ekkert nytsamlegt. Rétt að lufast til að hita upp afganga og þeyta rjóma, ef þá það. Jól eru hátíðleg og frábær, ég vildi alls ekki sleppa þeim en lets feis itt, fyrir venjulega húsmóður eru aðfangadagur og jóladagur ekki nein afslöppun. Eiginlega ættu allar húsmæður (af báðum kynjum auðvitað) að hafa lögboðið lestrar- og sjónvarpsfrí milli hátíðanna.

Og nú ætla ég að sofna út frá blaðsíðu 3.

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Nóttin var sú ágæt ein

  1. —————————————————–

    Og Eva sá að jólin voru góð. Það varð kveld og það varð morgunn, hinn annar dagur jóla.

    Posted by: Þorkell | 26.12.2006 | 10:09:54

Lokað er á athugasemdir.