Á föstudaginn var ég svo veik að ég fór ekki í vinnu og hélt mig í bælinu mestan hluta dagsins. Það gerist ekki oft. Líklega var þetta hefnd örlaganna fyrir að fara lasin á tónleika en ég sé samt ekkert eftir því. Ef ég hefði samt sem áður verið svona slöpp hefði ég nagað handabökin inn í bein fyrir að hafa ekki farið.
Ég held að galdrasúpan hennar Sigrúnar (sem hér eftir verður aldrei kölluð annað en „súpa frá grunni“) hafi bætt upp það sem mixtúran vallhumall-blóðberg-íbúfen-brjóstdropar-mjaðurt réði ekki við. Ég var nánast orðin góð um hádegi í dag og er búin að taka þokkalegan skurk í vatnsnemunum. Ég lít ekki á það sem brot á áramótaheitinu þar sem ég vann ekkert á föstudaginn. Að vísu vafasamt að kalla það frí þegar maður er nánast rænulaus af sótthita en ég vann allavega ekkert.
Ég hef oftast haldið þrettándann hátíðlegan með matarboði en í þetta sinn bauð Sigrún okkur til sín og synir okkar hinir yngri, sprengjuóðari og umhverfisóvænni, sáu Hafnarfirði fyrir svifryksmengun fram í apríl. Amma Hanna og afi Bjarni héldu svo upp á annan í þrettánda í dag og buðu okkur, ásamt Helgu og hennar strákum í dásamlega lambasteik og ís og eplapæ á eftir.
Jólin komin niður í kjallara, eymingja tréð út fyrir lóðamörk og eins gott að ég komi mér í bælið svo ég verði vinnufær á morgun því ég er með kynningu annað kvöld.