Og dilla gervidindlum

Þegar ég er á djöfull-fyrirlít-ég-konseptið-stiginu (mér er alls ekkerti illa við karlmenn sem einstaklinga, það eru bara erkitýpurnar sem ég hef óttalegt ógeð á) skoða ég gjarnan prófíla á þeirri merku stefnumótasíðu einkamal.is, bara svona til að fá staðfestingu á þeim rétttrúnaði mínum að ég sé betur komin án eintaks af þessari merkilegu dýrategund. Í dag rakst ég á einn dásamlegan. Karl sem er að leita að konum sem vilja stofna með honum dildóklúbb sem myndi hittast einu sinni í viku eða mánuði.

Mér finnst hugmyndin athyglisverð svo ekki sé meira sagt. Hvað gerir fólk eiginlega í dildóklúbbi? Ætli það komi saman og ræði um mismunandi gerðir dildóa? Kannski einhver sem heldur stuttan fyrirlestur og sýnir glærur? Þetta eiga kannski að vera hagsmunasmtök sem berjast fyrir lækkun tolla á kynlífsleikföngum (eða allavega gervilimum :-Þ ). Eða koma konurnar með dildóana sína á staðinn og leyfa hver annarri að prófa? Hvaða hlutverki skyldi karlinn þá gegna á þessum fundum? Sér hann um að skipta um rafhlöður? Kannski hugmyndin sé sú að konurnar komi hver með sinn sköndul og skaufabelti og prófi dótið á gaurnum. Mætti segja mér að hann yrði þá nokkuð þrekaður undir miðnætti ef hann nær saman stórum klúbbi kvenna.

Stefán benti mér á möguleikann á að deildaskipta svona félagi ef það yrði mjög stórt. T.d. væri hægt að hafa sérdeild fyrir þær sem hrífast af rafknúnum gleðipinnum.

Eitt er allavega gefið; svona klúbbur getur ekki heitað neitt annað en Dindilhosan.

 

One thought on “Og dilla gervidindlum

  1. ——————————————–

    sorrí, mér finnst þetta bara fyndið…

    (og endilega sendu mér tölvupóst, þarf að ná í þig)

    Posted by: baun | 10.01.2007 | 9:24:51

    ——————————————–

    HAHAHA… fyndnasta sem ég hef lesið lengi!

    Posted by: Sigga | 10.01.2007 | 13:18:35

Lokað er á athugasemdir.