Ljóturöskun

Í gær gerðist pínu skrýtið.

Við Darri ákváðum að fara í þrjúbíó og á leiðinni út varð mér litið í spegil en fannst eitthvað undarlegt við andlitið á mér. Ég var smástund að átta mig á því en ég hafði gleymt að mála mig. Samt æptu augnpokarnir ekkert á mig. Ég var semsé í þessari óvenjulegu, eiginlega flippuðu stöðu, að vera ómáluð en samt ekkert ljót.

Ég hata að koma of seint svo ég sleppti því að mála mig. Enda greinilega ekki með ljótuna. Kannski var ég með sætuna?

Við fórum beint úr bíóinu í matarboð hjá Hörpu og Víði. Þau eru með fjandans spegil í eldhússinnréttingunni svo ég komst ekki hjá því að uppgötva að þetta hefur sennilega verið stundarbrjálæði hjá mér fyrr um daginn. Ég var alveg jafn ljót og ég er venjulega svona ómáluð.

Samt leið mér hreint ekkert illa yfir því. Fór ekki einu sinni heim til að mála mig áður en við fórum í leikhúsið. Hugsaði sem svo að verkið væri sennilega nógu áhugavert til að aðrir leikhússgestir beindu sjónum sínum að sviðinu fremur en mér.

Hvort ætli það sé merki um aukinn þroska eða hnignandi sjálfsvirðingu að ganga um ljót í heilan dag og vera slétt sama?

Ég mæli annars með Koddamanninum hjá Þjóðleikhúsinu. Ég hef aldrei séð jafn mikinn og vel heppnaðan hrylling á sviði. Kannski ágætt að Sigrún sat á milli okkar Darra, annars hefði ég áreiðanlega gripið fyrir augun á honum.

Best er að deila með því að afrita slóðina