Tvær persónur

Mér þykja karlmenn dæmalaust hrífandi verur. Alveg eins og nykurinn og önnur kynjadýr. Áratugalangar rannsóknir mínar á þessari sérstöku dýrategund hafa leitt mig að ýmsum merkum niðurstöðum um eðli og hegðunarmynstur tegundarinnar en þó eru enn fjölmörg atriði sem ég botna ekkert í.

Eitt af því sem vefst verulega fyrir mér er skilningur karlmannsins á dindli þeim er framan á honum hangir. Flestir menn virðast alls ekki líta á skottið sem líkamshluta, heldur fremur sem sjálfstæðan karakter.

Tungumálið endurspeglar þessa hugsun. Ekki einasta tala karlar um það sem „hann vill“ og það sem „honum finnst“, heldur notum við líka rósamál á borð við Jón á neðri hæðinni, vinurinn, félaginn, (Willie í ensku) o.s.frv. um kynfæri karla en ekkert sambærilegt er almennt notað um kynfæri kvenna.

Ég hef aldrei heyrt nokkurn mann persónugera handlegginn á sér eða vélindað. Ég hef heldur aldrei heyrt konu ræða um dindilhosu sína eins og hún hefði sjálfstæðan vilja og hugmyndir.

Því spyr ég, fávís konan; hvers vegna tala karlmenn svo oft um sprellann á sér sem sjálfstæðan persónuleika?

Best er að deila með því að afrita slóðina