Hefndarráð

Frá því að við opnuðum Nornabúðina hef ég ítrekað verið beðin um góða uppskrift af hefndargaldri gegn drullusokkum. Vissulega eru slíkir galdrar til og sjálfsagt að beita þeim ef ástæða er til. T.d. getur hefndargaldur verið hentugur ef viðkomandi kann ekki að skammast sín, þarf sennilega marga mánuði eða ár af ógæfu til að læra það og maður vill ekki eyða orku sinni í að terrorisera hann um lengri tíma. Í slíku tilviki er gott að beita galdri svo maður geti haldið áfram að lifa sínu eigin lífi í vissu um að hann sjái um að refsa sér sjálfur.

Hins vegar er sjaldan þörf að beita göldrum í hefndarskyni því til er nóg af einföldum og skilvirkum ráðum til að ná sér niðri á fíflum og hefndin er því sætari sem maður á meiri hlut í henni sjálfur.

Hér koma nokkur góð ráð og þau eru alveg ókeypis.

1 Notaðu börn og dýr til að ná fram hefndum

-Náðu góðu sambandi við börn drullusokksins. Leiktu hlutverk skemmtilega nágrannans og gefðu þeim alls kyns drasl sem þú ert hættur að nota. Ennþá betra væri að finna hluti sem þú hefur aldrei notað af skiljanlegri ástæðu. Leggðu sérstaka áherslu á hljóðfæri og aðra hluti sem gefa frá sér hljóð. Börn elska allt þessháttar.

-Ef þér er sérstaklega illa við fíflið skaltu kenna barninu að spila á blokkflautu. Eitt lag á tveggja vikna fresti er hæfilegt og ekki spillir ef það er lag sem vekur upp einhverjar óþægilegar minningar hjá fávitanum. Svo skaltu hvetja barnið til að vera duglegt að æfa sig og leyfa foreldrum sínum að heyra hvað það sé orðið flinkt að spila.

-Færðu barninu gjafir sem höfða til söfnunaráráttunnar og sýndu því auglýsingar um allt hitt bráðnauðsynlega dótið í seríunni.

-Vertu góður við gæludýr fíflins. Gefðu hundinum að éta við borðið og gefðu kettinum soðinn fisk á hverjum degi. Kettinum líður ekkert illa, hann verður hæst ánægður með fiskinn en fer hins vegar mikið úr hárum. Auk þess verður hann matvandur.

2. Nýttu þér fjölmiðla

-Klifraðu upp á þak ojmingjans og fiktaðu í sjónvarpsloftnetinu þegar uppáhaldsþátturinn hans/hennar er sýndur.

-Sendu fíflinu sms-boð í gegnum tölvu á 5 mínútna fresti heila helgi. (Ekki samt vera með dónaskap, það er svo hallærislegt.)

-Farðu inn á bloggsíðu fíflins og skrifaðu sníkjubloggfærslur sem koma umfjöllunarefni bloggarans ekkert við.

-Sendu ýmsum fyrirtækjum tölvupóst með beiðni um að fíflið verði sett á póstlista.

-Stofnaðu netfyritæki sem hefur þann eina tilgang að koma sem flestum auglýsingum til fíflsins.

-Safnaðu auglýsingum og öðrum ómerktum pósti úr stigagöngum í heilu blokkarhverfi í eina viku. (Oft leggja blaðberar slíkan póst frá sér við póstkassana af því þeir koma ekki öllu ofan í þá, auk þess sem margir sem ekki kæra sig um slíkan póst skilja hann eftir í stigaganginum.) Farðu svo snemma á fætur á sunnudagsmorgni og settu allan safnhauginn inn um blaðalúgu fíflsins. Ef fíflið er með póstkassa, farðu þá á stjá á næturnar nokkrar vikur í röð. Gættu þess að vera á undan blaðberunum. Troðfylltu póstkassann af ruslpósti svo Mogginn og Fréttablaðið komist ekki fyrir.

3. Sýndu yfirþyrmandi náungakærleika

-Bentu fólki sem stundar tengslamarkaðssetningu (keðju- og pýramídasölukerfi) á að viðkomandi fífl sé frábær sölumaður og líklegur til stórra afreka sem dreifingaraðili.

-Næst þegar þú hittir ódáminn skaltu svo spyrja hvort hann sé búinn að fá aukavinnu. Þú hafir verið að reyna að hjálpa til við að útvega verkefni af því þú hafir frétt af því að hann væri svo blankur.

-Bentu Vottum Jehóva á að heimsækja fíflið og kynna því kærleika Krists.

-Nálgastu fíflið með samúðarsvip á fjölmennum stað þar sem margir þekkja það en er hinsvegar algerlega óviðeigandi að rífast (t.d. á jólatrésskemmtun) og segðu því að þú hafir fengið Aðventistasöfnuðinn til að mynda bænahring og biðja fyrir því að ljós kærleikans megi umvefja sálu þess.

-Hafðu samband við Ómega og segðu að fíflið hafi orðið fyrir andlegri vakningu sem frábært væri að fá að heyra um í sjónvarpi.

-Kallaðu fílið aldrei annað en „vin“, eða þinn „elskulega vin“. Bjóddu því góðan daginn með geislandi brosi, segðu að þú hafir „sveipað það hvítu ljósi“ í gærkvöldi „til að laga viðhorfin“ og spurðu hvort það sé ekki farið að finna fyrir áhrifunum.

Best er að deila með því að afrita slóðina