Reiðilestur um mennskuna

Ég held að ég sé að koma mér upp varanlegu ógeði á því alltumvefjandi ljósi kærleikans sem gerir veikgeðja manneskjur að „indælu“ fólki. Ég hef aldrei kynnst indælli manneskju sem ekki er um leið sjálfsblekkingarsjúkur hræsnari.

Þetta pakk getur talað fjálglega um kristilegt umburðarlyndi og fyrirgefningu en eina ástæða þess að það „fyrirgefur“ er sú að það þorir ekki að horfast í augu við sársaukann sem fylgir því að hafa verið beittur órétti. Þar með er auðvitað ekki um neina fyrirgefningu að ræða. Málin hafa ekki verið gerð upp, heldur litið fram hjá þeim. Staðreyndin er nú sú að þegar upp er staðið er tiltölulega auðvelt að fyrirgefa hvað sem er svo framarlega sem það bitnar ekki á þér og þínum.

Athyglisvert er líka að indæla liðið virðist eiga auðvelt með að hlaupast undan ábyrgð og ímynda sér að hlutirnir hafi bara „átt að fara svona“, í stað þess að skammast sín og læra eitthvað hagnýtt af reynslunni.

Óheilbrigð er sú afstaða að sjá ekki eftir neinu.
Rangt að ljúga til um eðli sitt og innræti.
Hættulegt að horfast ekki í augu við dýrið í sjálfum sér.
Og að álíta sjálfan sig „góða manneskju“, það er allt í senn; sjúkt, rangt og hættulegt.

Undir sauðagærunni leynist nefnilega eðlileg manneskja og maðurinn er í eðli sínu dýr.

I´d give up my halo for the horn

and the horn for the hat I once had.

(Jethro Tull -Passion Play)

Best er að deila með því að afrita slóðina