Galdrabrúður og aflátsbréf

Hmmm… Nú hefur það verið staðfest og það á internetinu að ég sé „vingjarnleg„. Ekki minnist ég þess að mér hafi verið gefin sú einkunn áður. Þvert á móti er freðýsulegt eðli mitt alkunna. En kannski hefur Anna óvenjulegt innsæi. Nema hún sé veruleikafirrt.

Hún er allavega flink, svo mikið er víst. Færði mér þessar líka dásamlegu galdrabrúður sem eru svo fínar að ég tók aflátsbréfið mitt niður af veggnum til að koma þeim fyrir á góðum stað.

Já, vel á minnst; ef þú hefur í hyggju að syndga, skaltu endilega leggja leið þína í Nornabúðina. Þar er nefnilega hægt að fá kreditfyrirgefningu fyrir hinar ýmsu syndir með hæfilegri fórnargjöf til Mammons. Það er nú aldeilis ekki ónýtt að eiga inni allt að 10 hórdómsbrot áður en maður gerist sjónvarpsbatsjellor eða vera búinn að tryggja sér syndafyrirgefningu fyrir lygar áður en maður fyllir út skattaskýrsluna.

Hvað getur verið yndislegra en að syndga í fullri sátt við Mammon og vita að krabbameinssjúk börn njóta góðs af saurlífi manns?

Best er að deila með því að afrita slóðina