Langar að flytja

Það virðist útilokað að fá vini og ættingja til að kóa með mér í örvæntingarfullri þrá minni eftir að selja íbúðina. Í dag fór ég til Sigrúnar og reyndi að fá hana til að samþykkja að flutningar gætu aukið hamingju mína til muna en hún er jafn viss um það og allir aðrir að skynsamlega leiðin sé sú að halda út í a.m.k. ár í viðbót.

Ég get ekki útskýrt óbeit mína á því að búa hér. Það er ekkert að íbúðinni. Lögun hennar fer í taugarnar á mér og herbergjaskipan er óhentug en ég hef áður búið í íbúðum sem voru ekki fullkomnar og liðið prýðilega þar. Ekki er það staðsetningin og eina truflunin frá nágrönnunum er barnagráturinn sem hefst stundvíslega kl 7:03 á hverjum morgni og öskrin í foreldrunum sem hefjast 4 mínútum síðar. Þetta morgunritúal þeirra tekur ekki nema um 7 mínútur í allt og það er alls ekki þess vegna sem ég vil flytja. Ég bara þoli ekki íbúðina og reyni að vera eins lítið heima og ég mögulega get. Verst að þótt ég hefði efni á að tapa hálfri eða heilli milljón á því að flytja strax, þá hef ég ekki efni á neinu sem mér finnst meira aðlaðandi.

Ég hafði nefnilega ágæta ástæðu fyrir því að kaupa einmitt þessa íbúð; það var gerlegt.

Best er að deila með því að afrita slóðina