Haustblót

Ég hélt að ég hefði kollsteypst ofan í gríðarstóran lukkupott þegar Ásatrúarfélagið bauð mér að kynna fordæðuskap minn á haustblóti félagsins. Sá fyrir mér Fjörukrárstemmingu og taldi svo víst að þar yrði mikill fjöldi skemmtilegs fólks að ég sagði krökkunum að reikna ekki með mér heim fyrr en síðla nætur.

Ásatrúarfélagið reyndist vera fámennur hópur mölétinna gamalmanna auk tveggja nokkuð huggulegra manna og harðgiftra. Ég talaði í tæpar tvær mínútur og gaf svo orðið laust fyrir innlegg og spurningar. Ekki örlaði á áhuga á umfjöllunarefninu, allavega fékk ég hvorki spurningar né athugasemdir.

Ég settist niður í nokkrar mínútur fyrir kurteisissakir þótt ég ætti enganveginn heima á þessari fremur dauflegu samkomu og reyndar kom til mín kona sem kynnti sig sem „norn að vestan“. Erindi hennar var bara svona rétt að láta mig vita af því að galdur væri því aðeins réttlætanlegur að hann ætti upphaf sitt og endi í „ljósi og kærleika“.

Ojæja, öll kynning er víst nokkurs virði og ég hef svosem ekki varið laugardagskvöldunum til sérstaks gleðskapar síðustu mánuði hvort sem er. Veðrið gott og Vesturgatan aðeins spölkorn í burtu. Hefði þurft meiri athyglissýki en þá sem ég bý yfir til að afbera hangiketsát í hópi þessara kærleiksheiðingja. En matarlyktin rifjaði upp fyrir mér áform um nýjan lífsstíl sem á að einkennast af inntöku fleiri næringarefna en koffeins og sykurs. Innsiglaði því heilsuátak mitt með pylsu hjá Sjoppmundi. Ég segi kannski ekki að hún hafi jafnast á við þverskorna ýsu að næringargildi en góðir hlutir gerast hægt og þetta er þó framför.

Best er að deila með því að afrita slóðina