Hin eina rétta

-Kannski væri skynsamlegast af okkur að reikna ekki með að hittast oftar, sagði ég.

-Ef það er það sem þú vilt Mía litla.
-Ég sagði ekki að ég vildi það heldur að það væri skynsamlegt. Ég stóð sjálfa mig að því í kvöld að leggja mig fram um að bíða þín ekki með eftirvæntingu, og það er frekar hallærisleg sjálfsblekking. Ég vil ekki vera konan sem bíður.
-Það skil ég vel.

-Þú ferð út.
-Já, ég fer. Það var alltaf á hreinu.
-Já. Þú átt líka að fara. Þú átt að mennta þig og eignast börn og allt þetta sem fólk gerir og ég passa ekki inn í þá mynd. Ekki þú inn í mína heldur ef út í það er farið.
-Ég kem náttúrulega aftur en auðvitað ætlast ég ekkert til þess að þú bíðir. Það er ekkert gaman að eiga kærasta í annarri heimsálfu.
-Kærastastaðgengil, leiðrétti ég. Kærasti er einhver sem maður reiknar með að verði til staðar.

-Þú ætlar þá ekkert að hitta mig næst þegar ég kem?
-Þarf ég að svara þessu núna?
-Nei, alls ekki. Ef þú vilt getum við líka gert þetta á sama hátt og flestir. Ég get orðið ógeðslega leiðinlegur og hætt svo bara að hafa samband. Þú getur komið inn hjá mér sektarkennd yfir því að fara út og málið er dautt.
-Spáðu í það, margir leika svona leiki bara af því að þeir þola ekki að horfast í augu við að hlutirnir ganga ekki upp.

-Kannski finnurðu þann eina rétta strax í næstu viku.
-Það er enginn einn réttur. Allir mínir menn hafa verið réttir, allavega á meðan á því stóð.
-Þú ert kannski ekkert sú eina rétta en þú ert allavega rétt.
-Já. Ég er rétt. Allavega í augnablikinu.

-Í augnablikinu er allt rétt.

Best er að deila með því að afrita slóðina