Kuldagallinn

Svo í morgun þegar ég var að klæða mig í kuldagallann, datt mér dálítið skrýtið í hug.

Viðfang giftingaróra minna sagði á blogginu sínu um daginn að besta tilfinning í heimi væri að koma inn úr kuldanum. Auðvitað er það ósköp gott en mér finnst nú tilfinningin samt ekki betri en svo að ég forðast yfirleitt að fara út í miklum kulda að nauðsynjalausu. Það á við jafnt í holdlegum skilningi og tilfinningalegum.

Og ég fór að hugsa um hvort mér þætti meiri missir að kuldagallanum mínum eða Elíasi.

Það er alltaf hægt að verða sér úti um annan kuldagalla. Það er líka alltaf hægt að verða sér úti um annan kærastastaðgengil. Og allir eru einstakir ef út í það er farið.

Kannski ætti ég að senda viðfangi giftingaróra minna kuldagalla. Ég efast bara um að hann myndi nota hann.