Af og til, síðustu 13 árin eða svo, hef ég orðið upptekin af áformum mínum um að giftast doktorsnefnunni, sem af einhverjum dularfullum orsökum hefur aldrei verið til viðræðu um þann möguleika. Kannski er hann „innst inni“, nógu rómantískur til að halda að gott samband byggist á hjartsláttartruflunum. Eða hann heldur að jafn biluð kona og ég hljóti að vera erfið í sambúð. Eða hann heldur að konur séu almennt erfiðar í sambúð. Það er sennilega rétt ályktað hjá honum. Ef það er þá það sem hann heldur.
Nú er það ekki svo að ég sé haldin sérstakri ástríðu í garð þessa viðfangs giftingaróra minna. Ef svo væri hefði ég fyrir löngu sökkt mér í sætbeiska ástarsorg og ort nokkra tragedíurunkara. Kannski hefði ég kastað á hann óminnisgaldri svo hann gleymdi að greiða stöðumælagjald. Hann er svo góður strákur að það versta sem hann á skilið er að greiða 500-1000 kall í algjöru tilgangsleysi (ég held líka að hann tæki það í alvöru nærri sér)en þar með hefði málið verið dautt.
Það er bara ekki þannig. Ég er ekki með hjartsláttartruflanir. Ég hef hingað til gefið sjálfri mér þá skýringu að hann sé eini maðurinn sem ég veit um sem er í senn hrífandi karakter með áhugaverðar skoðanir, ekki með einhvern drampakka á bakinu, vantar ekki hjúkrunarkonu, er ekki fíkill og er líklegur til að vera góður við konuna sína.
Þetta er út af fyrir sig næg ástæða til að vilja giftast honum en nú er ég sumsé búin að átta mig á því að það er eitthvað meira saman við þessa þráhyggju mína. Áhugi minn á doktorsnefnunni virðist nefnilega blossa upp í hvert sinn sem ég þarf að setja klakavélina í gang til að fara ekki í tilfinningaflækju út af einhverjum sem hentar mér ekki hvort sem er.
Ég er ekki flink í því að byggja kofa uppi í tré. Þeir bara hrynja. Mig langar í gamaldags hús í Vesturbænum.