Sáum Sölku Völku

Ég hef ekki séð margar leiksýningar sem væri ekki hægt að setja eitthvað út á en þótt ég geti verið mjög dómhörð gagnvart skáldsögum finn ég sjaldan löngun til að benda á það sem betur mætti fara í leikhúsi. Ætla því ekki að tíunda það sem ég hefði viljað sjá Borgarleikhúsið gera á annan hátt í uppsetningu sinni á Sölku Völku, bara benda öllum leikhússunnendum og Halldórsunnendum á að mæta.

Ég er reyndar hrifin af öllum leikurum Borgarleikhússins en ef ég á að nefna einhvern sérstakan, verður það Halldóra Geirharðsdóttir sem fær mitt hrós að þessu sinni. Fáum ferst betur að leika hjárænulegt kvenfólk og svo er framburðurinn hjá henni til fyrirmyndar.

Eitt annars sem ég er að velta fyrir mér; Bergur Þór Ingólfsson leikur Angantý (sem er enganveginn lýti á sýningunni þar sem hann skilar sínu hlutverki með sóma). Ég hef aðeins séð Berg í hlutverkum barna og hálfgerðra kjána. Á maðurinn ekkert að fá að spreyta sig á annarskonar hlutverkum áður en alþjóð tengir andlitið á honum svo sterklega við barnaskap að hann þurfi mörg ár til að komast í annan karakter?

Best er að deila með því að afrita slóðina