Hrekkjavaka

Ein ég sit og sauma
seint á Hrekkjavöku
Elías kemur að sjá mig
ef ég þekki hann rétt þýðir víst ekkert að bjóða honum köku.

Birta: Þú ert stórefnileg.
Eva: Ég er nú reyndar að bulla. Ert þú annars ekki skáldið hérna, ég hef nú ekki séð mikil afköst frá þér undanfarið.
Birta: Ég get farið með „Hún var að brydda brúðarskóna“ fyrir þig á meðan þú bíður.
Eva: Í fyrsta lagi er ég að gera við svefnpokann hans Darra en ekki að brydda eitt eða neitt táknrænt og í öðru lagi er ég hreint ekki að bíða.
Birta: Jæja, hversu oft hefur Elías mætt of seint?
Eva: Aldrei.
Birta: Til hvers varstu þá að líta á klukkuna?
Eva: Maður lítur nú kannski á klukkuna þótt maður sé ekki orðinn óþreyjufullur.
Birta: Eigum við ekki bara að horfast í augu við hlutina eins og þeir eru? Þú ert konan sem bíður og við stefnum hraðbyrði í harmaklám. Og það var ekki ég sem bað um það.
Eva: Æ góða. Það er víst allra sálna messa í nótt. Heldurðu nú að þú ættir ekki bara að pilla þig til þinna heimkynna.
Birta: Farðu bara sjálf ef þú ert ekki sátt við mig. Það er ég sem er listamaðurinn í þessum líkama og ég veit ekki hvort ég nenni að vera í slagtogi við tregahóru sem öllu vill stjórna.
Eva: Fokk jú.

Birta:
Sat hún ein við sauma
sumarbjartar nætur,
brynju gerði úr Björkum
batt sér Jó um fætur.
Reið á klæðin risti,
ramman Þurs hún vakti.
Kontórstingja Kaunir
kossum sjálf hún þakti.

Eva: Fokk jú.
Birta (glaðlega): Við munum öll deyja.

Best er að deila með því að afrita slóðina