Sálnaflakk

Ég hef aldrei haldið Hrekkjavöku hátíðlega. Ekki svo að skilja að ég hafi neitt á móti því að þeir sem það fíla ættleiði siði annarra þjóða. Mér finnst bara fínt að hafa sem flest tilefni til að gleðjast, en okkar menning dugar mér. Eða hefur allavega dugað hingað til.

Sálnaflakkarinn segir að í nótt megi búast við að andar framliðinna yfirtaki líkama þeirra sem eru á ferli.
-Hvað verður þá um sálina sem fyrir er í líkamanum? spurði ég
-Þá verða tvær sálir í líkamanum.
-Eru þá ekki mjög margir með 2 eða fleiri sálir?
-Nei ekkert svo margir, það eru bara sálir sem eru fastar í limbóinu sem eru að reyna að komast til baka.

Ég trúi hvorki á limbóið né sálnaflakk og ekki einu sinni anda hinna framliðnu. Samt finnst mér eins og ég hafi tvær sálir. Ef væri ekki svona fjári kalt færi ég kannski á einhvern þvæling til að gefa annarri þeirra kost á að pilla sig eitthvert annað. Annars er ég ekki viss. Hvað ef sú sem færi yrði sú sem mér líkar betur við? Og hvað ef þær færu báðar? Eða ef sú þriðja tæki upp á að troða sér inn á mig líka? Kannski amma sáluga. OMG! Hún myndi örugglega heimta að ég æti siginn fisk og gengi í föðurlandi. Og engar líkur á að henni og Birtu kæmi saman.

Held að ég haldi mig við það plan að hitta Elías og láta þar við sitja. Kannski verður það í síðasta sinn.

Best er að deila með því að afrita slóðina