Ástin er ekkert æðst

Hvers vegna heldur fólk svona fast í þá hugmynd að ástin sé æðri hamingju og velferð?

Ég hef enga tölu á þeim fjölda kvenna og karla sem hafa komið til að leita staðfestingar á því að það sé gott, rétt og gerlegt að bjarga vonlausu sambandi af því að „mér finnst eins og okkur sé ætlað að vera saman“.

-Ef þú fengir kabbamein myndirðu þá bjóða það velkomið af því að örlögin hafa ætlað þér að deyja úr krabba? spyr ég og auðvitað eru allir reiðubúnir til að berjast gegn örlögum sem ætla þeim sjúkdóma og fátækt.

Af hverju gildir allt annað um ástina? Af hverju er fólk tilbúið til að halda dauðahaldi í samband við ótryggan og eigingjarnan maka? Af hverju er fólk tilbúið til að búa með einhverjum sem er haldinn fíkn eða þunglyndi og ætlar ekki að gera neitt í því? Af hverju vill karlmaður búa með konu sem sýnir af sér fullkomið ábyrgaðrleysi í fjármálum og sinnir hvorki tilfinningalegum né kynferðislegum þörfum hans? Af hverju heldur kona að örlögin hafi ætlað henni mann sem vill ekkert með hana hafa nema kannski til kynferðilegra afnota þegar honum hentar?

Er það ekki bara flóttinn undan einsemd mannsins í heiminum?

Best er að deila með því að afrita slóðina