Hamingjusöm?
Jú. Þrátt fyrir að lífið sé langt frá því að vera fullkomið er ég bara þó nokkuð hamingjusöm.
Hvað er eiginlega svona frábært?
Ég veit það ekki.
Ég er ánægð í vinnunni en ég hef oft verið í skemmtilegri vinnu áður án þess að líða beinlínis vel.
Ekki er ég að skrifa.
Ég vinn lengri vinnudag en mig langar.
Fjármálin hafa oft verið í betra standi.
Ég hata íbúðina mína að ástæðulausu.
Hef ekki séð karlmanni sem mig langar að kynnast betur bregða fyrir í marga mánuði. Elías -það er nú bara eins og það er.
Prinsessumálið í flækju sem ekki er á mínu færi að leysa.
Ég gæti fundið mér 100 hluti til að leggjast í þunglyndi yfir.
Samt líður mér bara helvíti vel.
Þetta er fáránlegt. Það er ekkert röklegt samband milli hamingju minnar og veraldlegra aðstæðna, nema bara þetta tvennt; ég má ekki eiga ógreidda reikninga eða raska svefnmynstrinu óhóflega. Að öðru leyti er endorfínframleiðslan í mér álíka dularfull og frímúrarareglan. Ég er auðvitað ánægð með að vera ánægð en nú vil ég vita hversvegna svo hægt sé að viðhalda ástandinu.