Láttu mig í friði

-Hvað er að sjá þig. Gleymdirðu hamingjugrímunni heima?
-Hmprr. Ég er ekki lengur alltaf hamingjusamur. Nú er ég bara næstum því alltaf hamingjusamur.
-Hvað er eiginlega að?
-Það ræði ég þegar ég er tilbúinn til þess. Ef ég verð það þá einhverntíma. Urraði hann.
-Ert þú drengurinn sem er alltaf til staðar fyrir vini sína en þarf aldrei á neinum að halda sjálfur?
-Láttu mig í friði.
-Finnst þér líklegt að ég láti þig í friði þegar ég veit að þú þarfnast mín?
-Maður á ekki að þarfnast annarra, það er stórhættulegt.
-Rétt er það, svaraði ég, maður ætti aldrei að taka áhættu í lífinu.
-Ég bara kæri mig ekki um neina helvítis samúð. Þessvegna kom ég hingað.
-Hafðu ekki áhyggjur, ég hef aldrei verið sérlega samúðarfull og allra síst gagnvart þeim sem vilja ekki tala. Má ég kannski bjóða þér að fá útrás á mér?
-Nejjj, það er ekki góð hugmynd. Ég gæti notað ljót orð.
-Það er í lagi. Ég veit að það er bara varnarháttur.
-Takk en ég held að ég afþakki það.

-Má þá bjóða þér að vekja hjá mér sektarkennd yfir því að geta ekki huggað þig?
-Hmpfrr. Ég vek hjá þér móðurtilfinningu er það ekki?
-Vekur það föðurlega tilfinningu hjá þér þegar ég þarfnast þín?
-Ekki kannski föðurlega. Frekar svona ég er mikilvægur tilfinningu.
-Einmitt. Og núna þarfnast ég þess að þú þarfnist mín. Svona ertu nú mikilvægur.

-Ókei, þú getur haldið utan um mig eða eitthvað ef þú endilega vilt en það eina sem ég þarfnast er að fá að vera í friði.
-Ef það er það sem þú vilt þá get ég alveg farið að sofa og látið þig í friði.
-Æi þegiðu bara og haltu utan um mig.

-Svona?
-Já, svona. Eða kannski aðeins fastar.