Að brenna Angaldós

Endurgjaldslögmálið virkar. Enginn þarf að berja annan með felgulykli því almennt sjáum við um að refsa okkur sjálf.

Þegar þú komst í gær fannst mér að það hlyti að hafa táknræna merkingu. Svo sat ég fram á nótt og horfði á uppgjörið en samt var eitthvað óuppgert hjá mér. Alveg fram að hádegi í dag.

Ég hef ekki ásakað örlögin. Ég gaf þér tækifæri til að fara illa með mig og þú notaðir það. Ég gaf þér tækifæri til að ræna mig og þú notaðir það líka. Ég gat sjálfri mér um kennt og sleppti því allri sjálfsvorkunn. Samt sem áður áttirðu ekkert með að koma svona fram við mig og þessvegna er eitthvað rökrétt og réttlátt við sápuóperu síðustu daga.

Hvað var þetta aftur há upphæð sem þú sveikst mig um? Ekkert ógurlega há. Nógu há til að ég lenti í fjárans vandræðum en ekki nógu há til að rústa lífi mínu. Reyndar yrði engin upphæð nógu há til að rústa lífi mínu en það er önnur saga.

Og hversu há er þessi upphæð sem þú varst að tapa, ekki af slysni heldur með því að hegða þér eins og fáviti? Fjórföld sú upphæð sem þú tókst frá mér? Það er dálítið mikið. Miklu meira en réttlátt getur talist. Af hverju refsarðu sjálfum þér svona harkalega? Ekki er skýringin sú að þú hafir skyndilega lært að skammast þín. Getur verið að þú hafir farið illa með fleiri en mig?

Merkilegt hvað lífið allt er táknrænt. Á síðustu tveimur vikum hef ég fengið tvær mjög óvæntar gjafir. Sameiginlegt verðmæti þeirra er nákvæmlega jafn hátt upphæðinni sem þú tapaðir að frádreginni þeirri upphæð sem þú stalst frá mér. En hvað það var nú skrýtið.

Nú get ég loksins brennt Angaldós. Ég er að hugsa um að hækka verðið á þeim galdri verulega. Á morgun ætla ég að hekla eitthvað fallegt.

Best er að deila með því að afrita slóðina