Meira um mennskuna

Hversu mörg tækifæri á maður að gefa einhverjum áður en maður afskrifar hann sem drullusokk? spurði Klikkun.

Ég held ekki að sé til nein þumalputtaregla í því sambandi. Þú þarft heldur ekkert að velta því fyrir þér ef þú bara horfist í augu við sjálfan þig og viðurkennir tilfinningar sem eru af einhverjum dularfullum ástæðum feimnismál. (T.d. höfnunarkennd, afbrýðisemi, biturð, niðurlæging, einmannaleiki og hefnarþorsti.) Ef þú gefur skýr skilaboð um leið og réttlætiskennd þín er særð, munu drullusokkar og dræsur hverfa úr lífi þínu af sjálfsdáðum. Þú verður kannski aldrei neitt rosalega vinsæll en þú getur allavega treyst þeim sem eftir standa.

Ég er ekki að segja að fyrirgefning sé slæm. Árekstrar og sættir eru hluti af mannlegum samskiptum. En ekki „fyrirgefa“ út í loftið án þess að málin séu gerð upp. „Æ, hún bara eitthvað bágt“ er oftast bara frasi til að komast hjá tilfinningalegu uppgjöri.

En ef þú heldur að það að vera „góð manneskja“ feli í sér botnlaust umburðarlyndi, ertu dæmdur til að verða fórnarlamb. Líf þitt verður samfelld vinsældasamkeppni. Þú þorir ekki að bera hönd yfir höfuð þér eða krefjast réttar þíns. Þú færð viðurkenningu fyrir að vera „skilningsríkur“ þegar staðreyndin er sú að þú hefur bara ekki kjark til að segja kvalara þínum að fara til fjandans. Afleiðingin er sú að þú leikur hlutverk fórnarlambsins.

Þegar þú ert festir þig í hlutverkinu „ferlega næs náungi“ gerast skelfilegir hlutir.
Í fyrsta lagi mun fólk misnota þig gengdarlaust.
Í öðru lagi verður útilokað fyrir annað fólk að vita hvar það hefur þig. Þú ert nefnilega svo „indæll“ að þú gefur aldrei heiðarleg skilaboð.

Því tek ég undir það með Martin McDonagh (leikskáld sem skrifaði m.a. Fegurðardrottninguna frá Línakri og Koddamanninn) að „ekkert er hættulegra en indælt fólk“.

Best er að deila með því að afrita slóðina