Heppilegur misskilningur

Ég játa að það kitlar hégómagirnd mína þegar huggulegir menn sýna mér áhuga og býst við að ég sé að eðlisfari fremur svona kókett. Það er samt þetta skilyrði; maðurinn verður að hafa eitthvað við sig svo ég sé verulega impóneruð. Ég kannast því ekki við að vera sérlega kókett við gamla menn.

Einhverja strauma hlýt ég nú samt að senda frá mér sem koma gamlingum til að halda að ég sé með einhverskonar afafetish, allavega eru þeir menn sem sýna áhuga á því að kynnast mér (annarsstaðar en í bælinu)iðulega komnir yfir sjötugt. Ég tek skýrt fram að ég hef ekkert á móti gömlum mönnum. Ég kann yfirleitt alveg ágætlega við gamalt fólk þótt ég hafi ekki heimahjúkrun að hugsjón.

Eldri maður sem ég vil gjarna þekkja SEM GAMLAN MANN, hefur það fyrir venju að klæðast grænum hosum þegar hann heimsækir mig. Frábær maður að nánast öllu leyti. Klár og skemmtilegur og sannarlega vænn maður. EN. Það skortir bara ákveðinn sjarma þegar maður sem er að reyna við mann er smjattandi -ekki af neinum perraskap, heldur af elli.

Í gær áttaði ég mig á því að hosuspengill þessi stendur í þeirri trú að ég sé heitkona Uppfinningamannsins. Ég ákvað að leiðrétta það ekki.

Best er að deila með því að afrita slóðina