Vondir nágrannar

Einu sinni fyrir löngu kom til mín viðskiptavinur sem bað um galdur til að losna við erfiða nágranna. Það er svosem ekkert óalgengt að fólk biðji um ráð til að bæta andann milli granna, hjálp við að leysa deilur friðsamlega eða jafnvel að losna við einhvern sem reynist óviðræðuhæfur. Þetta tilvik var þó dálítið sérstakt, þar sem allir í stigagangnum voru ósambúðarhæfir og ef ekki þeir sjálfir, þá voru það vinir þeirra sem gengu um með háreysti eða lögðu bílunum sínum illa. Halda áfram að lesa

Fyrstu orðin

Það fyrsta sem Jarðfræðingurinn sagði þegar þau Byltingin komu heim eftir pílagrímsferðina var almáttugur. Var hún þar að vísa til hins Frjádagslega útlits sonar míns en hann hafði spáð því að ég myndi nota þetta orð til að lýsa því hvernig mér væri innanbrjósts. Það er reyndar alveg rétt að það var einmitt það sem ég ætlaði að fara að segja en hún varð andartaki á undan mér. Halda áfram að lesa

Rósin

Jarðfræðingurinn kom snemma heim og var að hjálpa mér að lóða fram yfir miðnætti. Töluðum heilan helling saman og yfirvofandi leiðindum lauk á hálftíma. Nú er klukkan 7:09 og hún er þegar komin upp og situr nú í jógastellingu á búðargólfinu.

Það lítur út fyrir að ég hafi eignast bestu tengdadóttur í heimi.

 

Leiðindi

Byltingin er að vinna á Sólheimum, Jarðfræðingurinn að undirbúa ráðstefnu, Pysjan í Danaveldi, Lærlingurinn á Ítalíu, Anna á Spáni, Elías – það er nú eins og það er og Ljúflingur farinn heim að fóðra tíkina.

Ég hef andskotans yfirdrifið nóg að gera en nenni engu af því.

Mér leiðist.

Ég fann síðast fyrir þessari tilfinningu í ágúst árið 2000. Þá var ég fangavörður á Litla Hrauni. Leiðindin komust á alvarlegt stig en ég læknaði sjálfa mig af þeim með því að stofna til ástarsambands við einn fanganna. Það var ekki gott mál að leiðast of lengi.

 

 

Mín káta angist

Kæti mín hefur verið býsna sveiflukennd í morgun.

Byrjaði daginn á því að uppgötva að einhver fíkillinn hefur ekki getað stillt sig um að kveikja í eiturstöngli í lyftunni heima hjá pabba. Ég skilgreini reykingar í návist minni sem grófa líkamsárás og það er dálítið spes að finna öndunarfærin herpast saman en sjá ekki árásarmanninn. Ég veit að ég verð skrýtin á svipinn þegar fólk segir mér að illir andar hafi ráðist á það en þótt ég trúi því staðfastlega að vanlíðan þess eigi sér aðrar skýringar og veraldlegri, þá skil ég a.m.k. alveg hvernig því líður. Halda áfram að lesa

Auðleysanlegt vandamál

Þetta finnst mér snjallt svar. (Takk fyrir að benda mér á þetta Keli)

Ef ég hefði átt að svara þessu bréfi hefði ég sagt konunni að ég hefði fullan skilning á því hvernig henni liði en skilnaður væri ekki nauðsynlegur því það væri vel hægt að leysa vandamálið. Ég hefði ráðlagt henni að kaupa eitthvað fallegt í hans stærð og snyrtidót sem hentar hans húðgerð og gera honum svo fulla grein fyrir því að hennar eigið stöff væri ekki í boði. Það er auðvitað óþolandi þegar einhver sem er miklu stærri en maður sjálfur teygir skóna manns og nærfötin með því að troða sér í þau í leyfisleysi.

En mér finnst Miriam hafa svarað þessu betur.

 

Galdur á Jónsmessunótt

101Kirkjugarður á Jónsmessunótt er öðrum stöðum galdravænlegri. Allavega þegar maður er óökufær af kristilegu blóðþambi. Við hittum reyndar hvorki Satan né anda hinna framliðnu en ég stjórnaði hópgaldri í fyrsta sinn og Egill (12 ára) og Grímur (14 ára) munu líklega seint gleyma því að hafa fengið að taka þátt í slíkri athöfn. Halda áfram að lesa

Af heimsku mannanna

-Eva, finnst þér heimska vera vandamál í heiminum? spurði Drengurinn sem fyllir æðar mínar af Endorfíni.
-Já yndið mitt, svaraði ég.
-Af hverju?
-Af því að helmingur mannkynsins er heimskur og heimskt fólk tekur óheppilegar ákvarðanir. Jafnvel gáfað fólk tekur oft heimskulegar ákvarðanir svo þú getur rétt ímyndað þér hvað heimska skapar mörg vandamál.
Halda áfram að lesa

Ojæja

Smá umfjöllun um Palestínudvöl Hauks á stöð 2 í gær.

Ég er dálítið svekkt yfir áherslunni í fréttinni. Þetta hefði verið kjörið tækifæri til að fjalla um þjóðarmorðið sem verið er að fremja með blessun og aðstoð Íslendinga. En almenningur hefur svosem aldrei haft áhuga á þeim hörmungum sem við berum ábyrgð á og fréttir eru auðvitað ekkert annað en söluvara.

Neyðarúrræði

Um 16 ára aldur var mér orðið ljóst að fólk gerir nákvæmlega það sem því bara sýnist. Sumt af því er sjúkt, rangt og heimskulegt, hreint ekki Gvuði þóknanlegt, hvað þá mér. Ég hef semsagt vitað það nokkuð lengi að ég get ekki stjórnað heiminum og ekki einu sinni þeim sem eru mér nánastir. Ég hef aldrei verið fullkomlega sátt við þá staðreynd. Halda áfram að lesa

Klassinn

-Mér finnst ekkert siðferðilega rangt að hata þetta pakk. Það bara skekkir sjálfsmynd mína. Ég er nefnilega ákaflega rökvís og það er ekki rökrétt að sóa orku í tilgangslausa geðshræringu yfir óumbeðnum fréttum af fólki sem kemur manni ekki lengur við. Ég er samt reiðust yfir því að hafa keypt helvítis lygina. Trúað því að það væri eitthvað mikið og óviðráðanlegt að, þegar það var í rauninni ekkert annað en helvítis dóp. Mér finnst sjálfsblekking ekki smart og ég hafði allar forsendur til að sjá í gegnum þetta.

-Ég er ennþá á því að þú ættir að gefa Al Anon séns, sagði hann, svo varfærnislega að ég fékk það ekki af mér að springa.

Ef til er aumingjakölt sem ég hef meiri viðbjóð á en AA samtökin, þá er það Al Anon. Samsafn vesalinga sem hafa valið sér að lifa við óþolandi ástand. Undirlægjur sem þykjast geta búið með ábyrgðarlausum kúgara án þess að taka ábyrgðina af honum, án þess að láta hann kúga sig. Bjóða börnunum sínum upp á stöðugt rugl líka. Lítil reisn yfir því, verð ég að segja.

Ég segi það enn og aftur; mér finnst sjálfsblekking ekki smart. Verst að enginn hefur nokkurntíma lofað mér því að það væri eitthvað sérstaklega auðvelt að halda klassanum.

 

Bara þó nokkuð gott

Ég held að ég sé búin að finna uppskriftina að vel heppnuðu djammi. Hún hljóðar svo:

Undirbúningur: Brauðsneið með hnetusmjöri, létt andlitsförðun.
Klæðnaður: Það sem hendi er næst (reyndar eftir að maður hefur komið því í verk að setja svitastokkinn æfingagalla í þvottakörfuna, það eru takmörk fyrir því hversu kærulaus maður getur verið um útganginn á sér) og skór sem hægt er að ganga á án þess að eiga á hættu að hálsbrjóta sig.
Félagsskapur: 1 skemmtileg kona og hugsanlega 1 stimamjúkur barþjónn. Aðrir karlmenn skulu hundsaðir, einkum og sér í lagi ef þeir eru drukknir, illa lyktandi og vilja sitja sem þéttast upp við mann og fræða mann um enska knattspyrnu.
Veitingar:1 léttvínsglas, 1 dísætur kokteill, 2 konfektmolar.
Staður: Reyklaus.
Tími: 21:30-00:05
Heimferðarmáti: 90 sekúndna ganga.

Það var milljón gaman og ef ég finn færri en 5 innsláttarvillur í þessari færslu í fyrramálið, þá er það til marks um að ég sé hæfilega full líka.

Er farin í rúmið. Líður svo vel að ég nenni ekki einu sinni að jesússa mig.