A piece of my heart

Hildigunnur klukkaði mig á facebook.

Ég tek oft þátt í svona netleikjum en þar sem eitt af því sem gerir mig að mér er tregða til að fara eftir uppskriftum, leyfi ég mér oft að breyta einhverju. Þessi leikur býður upp á óttalegt bull og ég hef ekki nægan aulahúmor fyrir það svo ég ákvað bara að gera þetta eftir mínu höfði. Halda áfram að lesa

Sex orða meme handa allskonar fólki

Meme-æðið greip mig. Dásamlegt ljóðform. Þótt það sé líklega ekki hugsað sem ljóðform. Húsmæður á heljarþröm náðu mér ekki niður af reiðinni sem hefur heltekið mig síðustu daga en það gerði meme. Örljóð um lífshlaup maura, það þarf í alvöru ekki meira en 6 orð. Sá sem telur sig þekkja yrkisefnið dregur slíkar ályktanir á eigin ábyrgð. Halda áfram að lesa

Árdagspæling viðskiptafrömuðar

Ég er að fara upp á Bifröst í kvöld. Kannski hitti ég Leif Runólfsson. Ég er að vísu búin að gefa hann, því ég er að safna fyrir Önnu og facebook Mammon verðlaunar þá sem gefa. Ég á hinsvegar enn nokkuð í land með að eiga fyrir Önnu (andskotans verðið á þessu kvenfólki) svo ef Leifur Runólfsson reynist vera gæft og snyrtilegt gæludýr, getur vel verið að ég kaupi hann aftur.

 

Facebook leikir

Ég hækka stöðugt í verði. Er komin upp í $233,262. Michael Cox virðist staðráðinn í því að halda mér því hann er búinn að kaupa mig 4 sinnum. Ég veit hinsvegar ekki alveg hvernig ég á að taka því að prófílmyndin af mér er metin hærra en ég sjálf.

Ég ætla að hitta facebook mann á morgun. Neinei, það er ekki Leifur Runólfsson.

Ég á mann!

Ég opnaði facebook núna áðan, aðallega til þess að hafa einhverja afsökun fyrir að vera ekki að sinna vinnunni minni og hvað haldiði; ég fékk gjöf.

Það var hún Harpa mín sem var svo sæt að senda mér einmitt það sem mig langaði í, meira en allt annað í heiminum; karlmann! Hann heitir Leifur Runólfsson og kostaði 884 facebook dollara.

Ég sé að eigandi minn (sem síðast þegar ég vissi var einhver arabi) er búinn að setja mig á uppboð. 17 manns hafa boðið í mig. Hæsta boð er $99.526. Spurning hvort ég er ekki of dýr til að Leifur geti talist mér samboðinn en það er allt í lagi, ég bara gef hann ef mig langar ekki í hann lengur.

Takk Harpa mín. Mig hefur alltaf langað í karlmann og nú á ég einn svoleiðis.

 

Hvusssslags eiginlega budddl er þetta?

Uhh!  Ég ætlaði að kíkja á singels og athuga hvort ég fyndi ekki einhvern rugludall, nema hvað; það er ekki hægt að skoða prófíla nema hjá vinum. Til hvers í fjáranum ætti maður að þurfa að skoða prófílupplýsingar vina sinna og hversvegna ætti maður að stofna til netvináttu við einhvern ókunnugan þegar maður hefur ekki einu sinni séð prófílinn hans? Sérdeilis bjánalegt fyrirkomulag verð ég að segja.

Rugl

Og ég sem hélt að ég gæti auðveldlega lent í einhverju bráðskemmtilegu rugli með því að skrá mig á singels á facebook. Hef ekki fengið nein viðbrögð ennþá. Hinsvegar er fullt af útlendingum á social me sem vilja ólmir daðra við mig. Hef ekki tíma í svoleiðis rugl. Vil eingöngu rugl sem gæti leitt af sér eitthvað blogghæft.

Hólí krapp!

Ekki spyrja mig hvað hljóp í mig, það er ekki eins og ég hafi einhvern tíma til að sóa í vitleysu í dag, en mér varð það á að kíkja sem snöggvast á femin.is. Ég kenni þér um það Beta.

Þetta hlýtur að vera rökvilla ársins 2007:

Því eldri sem þú ert, því fleiri elskhuga hefur þú átt, og því fjölbreyttara kynlíf hefur þú stundað.

Plís, fyrir þá litlu trúarglætu sem ég ennþá hef gagnvart mannkyninu; getur ekki einhver vísað mér á rannsókn sem sýnir fram á það með óyggjandi hætti að konan sé heimskara kynið?

Facebook

Ég hef ekkert notað facebook sjálf en nokkrir af vinum mínum og kunningjum hafa gefið mér aðgang að síðunum sínum. Það er út af fyrir sig gaman að fá að sjá myndir úr daglegu lífi fólks sem manni líkar vel við. Mér finnst aftur á móti mjög einkennilegt þegar fólk sem ég hef aldrei séð eða talað við og veit nákvæmlega ekkert um, er að skrá mig sem „vin“ á facebook. Ég gæti skilið það ef þetta væru listamenn að reyna að vekja athygli á stórkostlegum ljósmyndum, eða einhver að leita að týndum vini en þetta eru bara venjulegar myndir af vinum og fjölskyldu viðkomandi. Af hverju ætti ég að hafa áhuga á fjölskyldu- og partýmyndum fólks sem ég þekki ekkert og af hverju vill þetta fólk endilega að ég skoði þær?

 

Pínu nörd

Sjálfsmynd mín passar ekki vel við hugmyndir mínar um nörd. Einu skiptin sem ég hef verið kölluð nörd eru þegar mér verður það á að segja málfræðibrandara. Ég fann nördapróf á blogginu hennar Hildigunnar (jamm, rétt til getið, þetta var mjög rólegur dagur) og samkvæmt því er ég allavega í áhættuhóp. Ég hef engan áhuga á eðlisvísindum og er löngu hætt að spila spunaspil svo ég dreg niðurstöðuna í efa.

I am nerdier than 82% of all people. Are you a nerd? Click here to find out!

 

Ellefta geðorðið

Hér er skemmtilegur leikur fyrir þá sem hafa gaman af að koma fólki í uppnám. Hann er mjög einfaldur og krefst hvorki innsæis, gáfna, þekkingar né leiklistarhæfileika. Það eina sem þú þarft að gera er að segja eina setningu sem byrjar á „ég trúi nú bara ekki á…“ og svo eitt af geðbólguorðunum 10. Engu máli skiptir hvort þú segir þetta afsakandi, í trúnaðartón, blátt áfram eða frekjulega eða hvort augnaráðið er yfirvegað, ósvífið, þreytulegt eða geislandi af djúpri visku; viðmælandinn MUN sleppa sér í geðbólgu og reyna að koma fyrir þig vitinu með misgáfulegum fyrirlestrum.

Ég hef prófað ýmis orð og komist að raun um að þau vekja mishörð viðbrögð. Það þykir t.d. skrýtið og jafnvel ótrúlegt að trúa ekki á Jesús en það er þó sjaldnast álitið merki um að ég sé mjög geðveik eða jafnvel hættuleg. Það sleppur líka að trúa ekki á andaglas en Almáttugur, Óðinn og allir djöflarnir forði þeim sem trúir ekki á anda hinna framliðnu. Reynsla mín hingað til er sú að geðbólguorðin séu þessi 10:

-Gvuð
-Fyrri líf
-Eftirlíf
-Skyggnigáfu
-Anda hinna framliðnu
-Meðfæddan kærleika mannsins
-Yfirnáttúru
-Dularöfl
-Árulestur
-Alheimsljósið

Í dag fann ég eitt geðbólguorð til viðbótar og gott ef það er ekki áhrifameira en öll hin samanlagt. Ég prófaði að segja viðskiptavini að ég tryði ekki á orku. Það er reyndar haugalygi, ég trúi alveg á orku en ég trúi því ekki að það sé hægt að „jafna orkuflæði líkamans“ (hvað sem það nú merkir) með því að bera á sér stein eða annan grip.

Ég mun aldrei aftur leggja það á lítið barn að hafa yfir jafn magnaða farartálmaþulu í áheyrn foreldranna en ég er allavega búin að finna ráð til að tryggja mér félagsskap um alla framtíð.

Á morgun ætla ég að prófa að segja „ég trúi nú bara ekki á vísindin.“

 

Viðbótarplan

Já, ég ætla líka að vera búin að horfa á heila seríu af einhverjum góðum afþreyingarþáttum. Kannski Boston Leagal. Ég hef ekki horft á heila seríu af neinu heiladrepandi síðan ég lagðist í viku törn af Friends vegna illrar mixtúru af óhamingju, hálsbólgu og bílleysi í janúar árið 2000. Ætla samt að hafa geðslegri forsendur í þetta sinn.