Í gærkvöld dundaði ég við þá uppbyggilegu iðju að gambla með vini mína á facebook. Ég er að safna fyrir Önnu en hún er svo dýr að ég ákvað að setja Eirík Stefán á útsölu.
-Þetta er facebook. Það er svona innihaldslaus dægradvöl fyrir félagslega öryrkja, svona einmana fólk um fertugt sem á sér ekkert líf útskýrði ég þegar Haukur kom í morgun. Hann minnti mig á að mér hefði reyndar verið boðið á tónleika í gær, sem ég gleymdi að mæta á. Reyndar hefði ég líklega ekki mætt þótt ég hefði munað eftir þeim. Ég á náttúrulega alveg líf þótt ég hafi vanrækt það nokkur kvöld og eigi 10-12 gæludýr á facebook.
Haukur hafði ætlað sér að taka langömmu sína með sér í anarkistamat í hádeginu en hún var svo upptekin að hún mátti ekki vera að því. Haukur hefur áhyggjur af því að langamma sé einmana. Segir að það sé bara ekki hægt að vita til þess að heilbrigð manneskja fylgist með allt að fimm sápuóperum, án þess að finna sig a.m.k. knúinn til að draga hana út í kröfugöngu eða anarkistasúpu af og til. Hún er 97 ára. Ég efast um að henni hafi nokkurntíma leiðst heilan dag í senn. Hún er allavega ekki svo langt leidd að hanga á facebook.
Ég þáði boð í grill og Júró í kvöld. Reyndar með þeim fyrirvara að mér kynni að mistakast að láta í ljósi fölskvalausa hrifningu á tónlistinni. Anna sagði að það kæmi ekki að sök því allir viðstaddir væru yfirlýstir andjúróaðdáendur. Við fórum og keyptum efni í cosmó í hádeginu. Þetta verður bleikt kvöld.
—————————
en mér skilst að þú hafir keypt mig sem gæludýr á facebook… hmmmm….
Posted by: inga hanna | 24.05.2008 | 22:44:57