Klassinn

-Mér finnst ekkert siðferðilega rangt að hata þetta pakk. Það bara skekkir sjálfsmynd mína. Ég er nefnilega ákaflega rökvís og það er ekki rökrétt að sóa orku í tilgangslausa geðshræringu yfir óumbeðnum fréttum af fólki sem kemur manni ekki lengur við. Ég er samt reiðust yfir því að hafa keypt helvítis lygina. Trúað því að það væri eitthvað mikið og óviðráðanlegt að, þegar það var í rauninni ekkert annað en helvítis dóp. Mér finnst sjálfsblekking ekki smart og ég hafði allar forsendur til að sjá í gegnum þetta.

-Ég er ennþá á því að þú ættir að gefa Al Anon séns, sagði hann, svo varfærnislega að ég fékk það ekki af mér að springa.

Ef til er aumingjakölt sem ég hef meiri viðbjóð á en AA samtökin, þá er það Al Anon. Samsafn vesalinga sem hafa valið sér að lifa við óþolandi ástand. Undirlægjur sem þykjast geta búið með ábyrgðarlausum kúgara án þess að taka ábyrgðina af honum, án þess að láta hann kúga sig. Bjóða börnunum sínum upp á stöðugt rugl líka. Lítil reisn yfir því, verð ég að segja.

Ég segi það enn og aftur; mér finnst sjálfsblekking ekki smart. Verst að enginn hefur nokkurntíma lofað mér því að það væri eitthvað sérstaklega auðvelt að halda klassanum.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Klassinn

 1. —————————————–

  Áfengissýki, aumingaskapur eða sjúkdómur ?
  Hvað með að segja sem svo : „Sértu alki þá kemur þú mér ekki lengur við. Skipti engu hvort þú sért sonur,dóttir, bróðir, systir, móðir,faðir, ef þú ert alki þá ertu aumingi og þá þekki ég þig ekki lengur og hef reyndar aldrei þekkt þig. Þú vissir það nefnilega ekki en skilyrðið fyrir því að ég elskaði þig var að þú væri fullkomin eins og ég. Um leið og þér varð á hafði ég aldrei elskað þig.“

  Þessi umræða minnir mig dáldið á Soffíu frænku í Kardemommubænum. Hún gat alltaf sullað í sinu vatni tandurhrein.

  Posted by: Guðjón Viðar | 21.06.2007 | 12:58:17

  —————————————–

  Stundum verður mönnum á. Allir eiga það til að vanrækja skyldur sínar, tala óvarlega eða gera sig seka um eigingirni af og til. Það er þó aðeins fíkillinn á heimtingu á skilyrðislausri fyrirgefningu þegar hann eyðileggur líf allra í kringum sig, aftur og aftur og aftur, því auðvitað á hann alltaf „skilið“ að fá „annað tækifæri“.

  Þegar einhver skeinir sig á tilfinningum þínum muntu fyrr eða síðar standa frammi fyrir því að þurfa annað hvort að sturta niður eða sitja uppi með stíflað klósett og jafnvel eitthvað ennþá kræslegra flæðandi út úr því.

  Posted by: Eva | 21.06.2007 | 13:46:56

  —————————————–

  Annars er athugasemd gv skemmtilegt dæmi um eitt af stjórntækjum fíkilsins. Ef þú vilt ekki sætta þig við óþolandi framkomu, þá er það vegna þess að þú ert með fullkomnunaráráttu, skortir mannkærleik og kannt ekki að fyrirgefa.

  Reyndar má geta þess gv til upplýsingar að skilyrðislaus ást er ekki til.

  Posted by: Eva | 22.06.2007 | 0:18:26

Lokað er á athugasemdir.