Um 16 ára aldur var mér orðið ljóst að fólk gerir nákvæmlega það sem því bara sýnist. Sumt af því er sjúkt, rangt og heimskulegt, hreint ekki Gvuði þóknanlegt, hvað þá mér. Ég hef semsagt vitað það nokkuð lengi að ég get ekki stjórnað heiminum og ekki einu sinni þeim sem eru mér nánastir. Ég hef aldrei verið fullkomlega sátt við þá staðreynd.
Einu sinni hélt ég að besta trixið til að forðast sársauka væri að treysta aðeins fáum og gera til þeirra kröfu um a.m.k. lágmarks heiðarleika. Það bara virkar ekki. Heiðarleiki útheimtir nefnilega hugrekki og það er næsta fágætur eiginleiki.
Ég komst að þeirri niðurstöðu það eina sem maður gæti gert, sjálfum sér til verndar, væri að slíta öll tengsl við þá fávita sem eru geðheilsu manns hvað hættulegastir. Hugsa sem svo að þar sem heimurinn er fullur af dásamlegu fólki, sé ástæðulaust að eiga samskipti við þessar 5 eða 6 hræður sem gera manni lífið erfiðara. Ég mæli með þessari aðferð því hún virkar prýðilega á meðan maður getur sneitt hjá öllu sem minnir á tilvist fávitans. Hún dugar samt ekki ein og sér, því fyrr eða síðar kemur að því að maður rekst á hann, fréttir af honum eða verður fyrir öðru áreiti sem kallar fram gamla reiði og sárindi.
Reiðin fer líklega verst með mann sjálfan svona til lengdar. Ég á ekkert erfitt með að stinga reiðinni niður í skúffu. Ég missi ekki stjórn á skapi mínu. Ég hef bara geymt reiðina alveg roslega lengi. Hingað til hef ég losnað við reiðina þegar ég sé merki einlægrar iðrunar, eða þegar fávitinn hefur séð um að refsa sér sjálfur (sem undarlegt nokk gerist ALLTAF). Það hefur ekki hent mig fyrr að vita réttlætinu fullnægt og verða bara ennþá reiðari.
Ég hef aldrei óskað þér neins verra en þess að fá bólu á nefið og ekki veit ég hverslags endemis blanda af sjálfsfyrirlitningu og heimsku hefur komið þér til að kjósa yfir þig aðra eins eymd. Það gleður mig ekki rassgat að vita þig þjást og þótt ég sé jafn frábitin því og áður að troða fyrirgefningu upp á þá sem ekki hafa óskað eftir henni formlega, (enda er það fullkomlega órökrétt) sé ég ekki betur en að ég verði sjálfrar mín vegna að horfast í augu við þá staðreynd að þrátt fyrir allt elska ég þig ákaflega mikið.
Misskildu mig ekki. Ég hef ekki fyrirgefið eitt eða neitt þótt sjálfsagt myndu einhverjir grunnhyggnir kjánar flokka þetta sem fyrirgefningu. Mér þykir bara of vænt um sjálfa mig til að nenna að leggja það á mig að vera reið lengur og of vænt um þig til að geta látið mér standa á sama um þig. Það er bara uppgjöf, enginn klassi yfir því. Mér þykir það leitt.