Af heimsku mannanna

-Eva, finnst þér heimska vera vandamál í heiminum? spurði Drengurinn sem fyllir æðar mínar af Endorfíni.
-Já yndið mitt, svaraði ég.
-Af hverju?
-Af því að helmingur mannkynsins er heimskur og heimskt fólk tekur óheppilegar ákvarðanir. Jafnvel gáfað fólk tekur oft heimskulegar ákvarðanir svo þú getur rétt ímyndað þér hvað heimska skapar mörg vandamál.

-Já en heimska hlýtur að vera skortur á greind og þar sem greind er ekkert annað en hæfni til að leysa vandamál, þá er fólk almennt greindara en hefðbundin greindarpróf gefa til kynna.

Einu sinni vann ég t.d. með stelpu sem hefði ekki getað lagt saman 7 og 8 þótt hún ætti líf sitt að leysa. Hún skildi varla mælt mál og maður heyrði næstum blísturhljóð úr eyrum hennar þegar hún gekk fram hjá. Samt var hún frábær starfskraftur á bar. Það vafðist aldrei fyrir henni að forgangsraða verkefnum, hún gat unnið hratt án þess að nokkur tæki eftir minnsta stressi og henni tókst alltaf að halda öllum kúnnum ánægðum, alveg sama hvað álagið var mikið og hversu margt hafði farið úrskeiðis. Semsagt, miklir hæfileikar til að leysa alvöru vandamál sem venjulegt fólk stendur frammi fyrir á hverjum degi en samt myndir þú álíta að vanhæfni hennar til að leysa verkefni á greindarprófi sé vandamál!

-Auðvitað er heimska hennar vandamál. Ímyndum okkur að ég og þessi stúlka sæktum báðar um vinnu á sama veitingastaðnum. Ímyndum okkur líka að ég væri nógu víðáttuvitlaus að láta vinnuveitandann ekki vita af andstyggð minni á fyllibyttum. Veistu hvað myndi gerast? Ég yrði sett á barinn, hún í uppvaskið, þrátt fyrir að hún hafi margra ára stafsreynslu á bar en ég enga. Bara af því að hún ber heimsku sína utan á sér. Ég fengi hærri laun en hún, af sömu ástæðu.

Viku síðar væri geðbólga mín gagnvart fullu fólki á hraðleið með að verða að vandamáli. Þá myndi ég ljúga upp einhverri vitleysu og biðja um að fá að fara í eldhúsið. Stúlkan yrði sett á barinn og hún stæði sig mun betur en ég. Hún væri auk þess líkleg til að ílengjast á vinnustaðnum en aftur á móti væri ég augljóslega að bíða eftir betra atvinnutilboði, sem ég og fengi innan 5 vikna. Hvað heldur þú að yrði langt þar til þessi stúlka fengi launahækkun? Vegna heimsku sinnar myndi hún sætta sig við að vera á lægri launum en verri starfskraftur sem vill svo til að er fær um að mynda málvillulausa setningu og veit muninn á samlagningu og deilingu. Vegna sinnar eigin heimsku myndi vinnuveitandinn ekkert gera til að halda henni lengur ef hún ákvæði að segja upp vinnunni. Vegna þess hve heimsk hún er bæri hann svo lilta virðingu fyrir henni að hann tæki aldrei almennilega eftir frammstöðu hennar. Hún gæti leyst vandamál á barnum en stóru vandamálin hennar eru metnaðarleysi og léleg laun og heimska hennar varnar því að hún leysi þau.

-Kannski ættum við frekar að skilgreina greind sem hæfni til að leysa sín eigin vandamál?
-Já, sagði ég, prófaðu að sækja um vinnu og segja atvinnurekandanum að þú sért mjög fær í því að leysa þín eigin vandamál. Þú gætir t.d. sagt honum að þú hafir gífurlega háa sjálfsfróunargreind. Er ekki eitthvað svoleiðis til hjá Gardner?
-Sjálfsfróunargreind er góður hæfileiki út af fyrir sig en leysir ekki nema eitt vandamál. Samt töluvert praktískara en að vita hvað lógarythmi er.
-Hvernig er annars fræðilega skilgreiningin á greind?

Við flettum því upp á vísindavef Háskólans. Samkvæmt honum er greind eiginleikar sem mælast á greindarprófum. Stundum finnst mér Wikipedia ekki nærri eins slæm og hún í rauninni er.

Best er að deila með því að afrita slóðina