Lóg

There must be 50 ways to leave your lover
Ég held ekki. Allavega er engin góð leið til þess.

Allt í einu áttaði ég mig á því að stærstu mistök mín í lífinu hafa verið þau að elska menn sem aldrei hafa losað sig við gæludýr. Eins og Lærlingurinn segir; tilgangur gæludýrs er sá að láta börn kynnast dauðanum. Ég segi að tilgangur gæludýrs fyrir fullorðið fólk sé sá að kenna okkur að svíkja án þess að fara yfirum af sektarkennd.

Þegar þú horfir í augu gæludýrs sem þú hefur ákveðið að láta svæfa, verður þér ljóst að dýrið veit hvað þú ert að hugsa. Það vonar sjálfsagt að þér snúist hugur. Það þiggur kannski síðustu gælurnar. En þú veist að ef þú kveður það með klökkva ertu hræsnari.

Á sínum tíma vonaði ég að Elías vildi gera tilraun til að elska mig. Því sjálfviljug verð ég aldrei ein aftur og ég hef átt gæludýr en ekki þú, svo ég hefði getað horft í augu þín kaldrifjuð, og sagt; ekki svo að skilja að þú skiptir mig ekki máli. Þú gerir það. Í alvöru. Bara ekki nógu miklu máli til að ég nenni að standa í frekara veseni þín vegna. Mér þykir það leitt. Ekki svo leitt að ég hætti við, en samt -dálítið leitt.

Nú kemur það víst í þinn hlut að drepa dýrið og af því að þú hefur aldrei látið lóga hundi eða ketti, muntu ekki segja mér það. Þar sem þú hefur klassa muntu heldur ekki grenja framan í mig. Líklega muntu bara láta þig hverfa.

Það er allt í lagi. Áður afbar ég það ekki. Hélt að ef einhver hyrfi án þess að virða mig uppsagnar, hlyti það að merkja að honum væri nákvæmlega sama. Þurfti þriðju gráðu áfallahjálp til að jafna mig. Ekki lengur. Núna skil ég nefnilega hversvegna þú ferð svona að ráði þínu. Þér er að vísu næstum því sama en það er ótrúlegur munur á næstum og nákvæmlega. Ég veit, elskan mín að það er ekki af því að þér sé sama sem þú ferð þessa leið. Það er bara vegna þess að þú hefur aldrei átt gæludýr.

Best er að deila með því að afrita slóðina