Ég læt sem ég sofi

Ligg vakandi og gæti þess að hreyfa mig varlega. Heyri samt á andardrætti þínum að líklega ert þú vakandi líka.

Það er ekki eins og við höfum aldrei vaknað að nóttu áður. Venjulega skiptum við bara um stellingu og njótum þess að sofna aftur, hjá einhverjum sem hvorki hrýtur né breiðir úr sér eins og búrhveli. Stöku sinnum höfum skipst á nokkrum setningum, til að ganga úr skugga um að hitastigið sé hinu þóknanlegt og engir klemmdir útlimir eða önnur óþægindi en við höfum aldrei haldið vöku hvort fyrir öðru.

Í þetta sinn vil ég þó ekki gera vart við mig. Við ræddum það nefnilega ekkert sérstaklega hvort þú ætlaðir að gista eða ekki. Líklega hefurðu hugsað þér það fyrst þú ert vakandi og ekki á förum en ef þú ert samt sem áður sofandi, gætirðu vaknað og ef þú vaknar gætirðu farið.

Hversvegna þú vilt ekki að ég viti að þú vakir er mér aftur á móti hulin ráðgáta. Kannski ertu andvaka og hræddur um að ég vilji vaka með þér og neyða þig til að drekka flóaða mjólk eða kamilluseyði. Andskotinn nei, þú þekkir mig betur en það.

Best er að deila með því að afrita slóðina