Kæti mín hefur verið býsna sveiflukennd í morgun.
Byrjaði daginn á því að uppgötva að einhver fíkillinn hefur ekki getað stillt sig um að kveikja í eiturstöngli í lyftunni heima hjá pabba. Ég skilgreini reykingar í návist minni sem grófa líkamsárás og það er dálítið spes að finna öndunarfærin herpast saman en sjá ekki árásarmanninn. Ég veit að ég verð skrýtin á svipinn þegar fólk segir mér að illir andar hafi ráðist á það en þótt ég trúi því staðfastlega að vanlíðan þess eigi sér aðrar skýringar og veraldlegri, þá skil ég a.m.k. alveg hvernig því líður.
Ég þarf víst ekki að taka fram að ég kættist afskaplega mikið við að ná andanum aftur en þó varð kæti mín öllu öfgafyllri þegar ég fór til eins af mínum uppáhalds byrgjum og var alveg óvænt boðinn sérstakur afsláttur. Mammon er með oss, svo og Guðmundur.
Þegar ég kom niður í búð tók tölvan upp á því að hegða sér eins og alkóhólisti. Allt sem hún gerði var í skársta falli órökrétt og í því versta óþolandi. Hringdi í geðbólgukasti í tölvunörd tilveru minnar sem kenndi mér einfalda uppeldisaðgerð. Tókst fyrir tilstilli æðri máttar þess sem kann á tölvur að lækna helvítið af óþekktinni án þess að skrá mig á vikulega költfundi til dauðadags og tók gleði mína á ný.
Lenti aftur í tilvistarkreppu þegar ég áttaði mig á því að allir söluhæstu galdrarnir voru búnir. Það er auðvitað merki um að hafi gengið vel þrátt fyrir að ég kunni að hafa misst af stórkostlegu tækifæri til að afgreiða einhverja konu sem sárnar það að ég kalli Siv Friðleifsdóttur lufsu (nema það sé andúð mín á því athæfi að reykja ofan í börn sem fer raunverulega fyrir brjóstið á henni) en varð jafnframt til þess að ég þurfti að endurskoða forgangsröðina.
Í augnablikinu er ég svona semi-hamingjusöm. Ég er ekki enn farin að sinna þeim verkefnum sem ég ætlaði mér að ljúka fyrir hádegi og er einkar ókát yfir því. Hinsvegar er ég búin að fylla hillurnar og ræð mér vart fyrir kæti þessvegna.
————————————————
bara að það væri nú hægt að galdra fíknina útúr hausnum á fíklunum…væri alveg til í að losna við reykingar forgúdd úr umhverfinu.
Posted by: baun | 26.06.2007 | 13:58:00
————————————————
Þetta hljómar eins og veðurspá dagsins. Það gekk á með…
Annars væri þetta frábært svar ef einhver spyrði hvernig þú hefðir það 🙂
Posted by: Þorkell | 26.06.2007 | 14:48:13