Hólí krapp!

Ekki spyrja mig hvað hljóp í mig, það er ekki eins og ég hafi einhvern tíma til að sóa í vitleysu í dag, en mér varð það á að kíkja sem snöggvast á femin.is. Ég kenni þér um það Beta.

Þetta hlýtur að vera rökvilla ársins 2007:

Því eldri sem þú ert, því fleiri elskhuga hefur þú átt, og því fjölbreyttara kynlíf hefur þú stundað.

Plís, fyrir þá litlu trúarglætu sem ég ennþá hef gagnvart mannkyninu; getur ekki einhver vísað mér á rannsókn sem sýnir fram á það með óyggjandi hætti að konan sé heimskara kynið?

Lit

Ljúflingur. Huldumaðurinn minn.

Þegar ég ætlaði að ýta þér til hliðar svaraðir þú með því að segja tíkinni þinni allt af létta og herja út formlegt leyfi til að gista hjá mér. Ég orti þér ljóð í tilefni af þeim undarlega gjörningi. Hélt áfram að leita að frambærilegum kærasta en tók samt nokkrar óafturkræfar ákvarðanir. Fannst ég næstum elskuð um tíma. Halda áfram að lesa

Mmmhmmm

Pegasus er búinn með vefbókina mína. Grey strákurinn. Hann hefur líklega haldið að það myndi svara einhverjum spurningum en glöggskyggnir hafa sagt mér að hún veki fleiri spurningar en hún svarar.

Nú er hann byrjaður á ljóðunum. Maður sem segist vera gersneyddur bókmenntaáhuga. Ég er farin að halda að þetta sé eitthvað persónulegt.

Ég sé að Lóa Aldísar er búin að gefa út skáldsögu. Stundum finnst mér eins og allir séu búnir að gefa eitthvað út nema ég. Jú ég gaf út eina ljóðabók en það er ekki að marka. Fólk les ekki ljóð. Nema náttúrulega Pegasus.

Andskot

-Það er eitthvert rugl í bankanum.

Jamm. Auðvitað getur bankastarfsfólk gert mistök. Ég hef lent í því sjálf. Það tók eina mínútu að laga það. Leigjandinn hans pabba míns borgaði ekki leiguna núna um mánaðamótin. Varð ægilega hissa þegar ég hafði samband því hún er með greiðsluþjónustu og innistæðan á reikningnum hennar var svo lág að upphæðin hlaut að hafa farið út. Hún fór inn á netbankann og sá villuna strax. Upphæðin sem hún leggur í reglubundinn sparnað hafði verið tekin tvisvar sinnum og ekki nóg eftir fyrir leigunni. Eitt símtal og mistökin eru leiðrétt. Halda áfram að lesa

Gúrk

Ég yrði leiðinlegur sjúklingur. Ég hef verið lasin síðan á fimmtudag og er með a.m.k. jafn mikla geðbólgu og hálsbólgu. Þetta er svona klassískt lasleikaástand, ekki nógu veik til að leyfa mér að leggjast í bælið en líður illa og er allt of slöpp til að ná viðunandi afköstum. Að sjálfsögðu er ég með ljótuna líka. Þrútin í kringum augun og rauð í kringum munn og nef. Sýg upp í nefið og hósta á milli þess sem ég staupa mig á dönskum brjóstdropum. Halda áfram að lesa

Táknmynd

Walter1
Einhverjum gæti dottið í hug að þetta sé einn af þessum gaurum sem sér um að halda björgunarsveitunum í þjálfun og rjúpnastofninum í lágmarki. Ekki alveg. Þetta er gaurinn sem sækir týndar rjúpnaskyttur og aðra sem hafa lent í ógöngum uppi á fjöllum. Myndin er tekin á Grænlandi en hann vann þar í mörg ár. Byssan er hluti af staðalbúnaði í þyrlum á Grænlandi en það ku víst ekki vera gott grín að sitja uppi með bilaða þyrlu í þarlendum óbyggðum. Halda áfram að lesa

Lúxuskrísa

Af og til lendi ég í ægilegri krísu yfir tenglastefnunni minni.

Tenglar á persónulegri vefsíðu geta nefnilega þjónað margvíslegum tilgangi. Þeir geta sagt eitthvað um eiganda síðunnar. T.d. hverja maður þekkir, hvað vekur áhuga manns og hverskonar vefbækur höfða til manns. Halda áfram að lesa

Fullkomnun

Sumir eru voða viðkvæmir fyrir því að maður notið orðið fullkomið. Halda því fram að fullkomnun sé ekki til. Það er nú meiri dellan. Fyrst orðið er til í málinu sé ég enga ástæðu til að nota það ekki. Fullkomið er einfaldlega það sem fer fram úr björtustu væntingum.

Eitthvað þar á milli

Ég hef lesið margar bækur um þá list að verða sér úti um almennilegan kærasta. Stefnumótavefir þykja gott mál en þeir sem hafa fylgst með sápunni minni lengi vita að ég hef ýmsar ástæður til að efast um gagnsemi þeirra, allavega þeirra íslensku. Annað sem þykir vænlegt til árangurs er að brosa til huggulegra karlmanna í matvörubúðum. Oft hef ég þrammað skælbrosandi fram hjá einmanaréttahillunum í Nóatúnum, margar ferðir (þrátt fyrir andstyggð mína á matvörubúðum) án þess þó að ganga nokkru sinni þaðan út með mann upp á arminn.

Til að gera langa sögu stutta hef ég notað öll trixin í bókinni án árangurs en í lok september var ég svo ótrúlega heppin að rekast á verulega eigulegt eintak á bekkjarmóti. Mission accomplished, að vísu alveg óvart en það er aukaatriði. Nú er það næsti kafli; þegar rétt gaurinn er fundinn, hvernig býr maður þá til gott samband? Það mikilvægasta er að styrkja jákvæða hegðun, segir bókin. Nújá og hvuddnin gerir maður það? Það ætti ekki að vera flókið. Tíuþúsund trix eru í boði. Vandinn er sá að flest þeirra eru engin trix heldur bara almenn kurteisi og rökrétt viðbrögð.

Nú glími ég við það lúxusvandamál að minn ástkæri er stöðugt að gera eitthvað rétt. Og hvað gerir maður þá? Í dag færði hann mér t.d. jólastjörnu, sem verður að teljast afar jákvæð hegðun. Ég sagði nú bara takk en þegar hann var farinn fór ég að hugsa um að líklega væri þetta svona dæmi þar sem ég hefði átt að styrkja hegðunina. Ég er nefnilega hrifin af jólastjörnum og finnst óskaplega gaman að fá blóm en með mína færni í blómarækt verð ég að líkindum búin að drepa jólastjörnuna á næsta ári og vil þá gjarnan fá aðra. Og til þess að svo megi verða þyrfti ég náttúrulega að drífa í því strax að styrkja hegðunina ‘að kaupa jólastjörnu handa elskunni sinni.’ Ég var hinsvegar algerlega hugmyndalaus um hvað ég hefði getað gert til þess. Kyssa hann? Jú ég gerði það náttúrulega en ég hefði gert það hvort sem er, jafnvel þótt hann hefði ekki komið með neina jólastjörnu. Hvað annað hefði ég átt að gera? Æpa af gleði? Hoppa? Tárfella? Einhvernveginn hef ég á tilfinningunni að það yrði frekar til þess að hann forðaðist blómabúðir framvegis. Gefa honum eitthvað í staðinn? Hvern andskotann þá? Páskaliljur kannski? Naaaaaa… blóm virka bara einhvernveginn öðruvísi á konur en karla.

-Gott sex virkar alltaf,
sagði vinur minn þegar ég spurði hann hvernig væri best að styrkja jákvæða hegðun karlmanns. Það hljómar nú svosem eins og bráðskemmtileg aðferð en ekki gat ég skverað manninn á búðarborðinu. Auk þess sé ég fyrir mér að ef ég ætli að beita þessu trixi í hvert sinn sem hann gerir einmitt það sem ég vil, verði ég orðin sigggróin um áramót og þar fyrir utan þá verðum við fyrr eða síðar að mæta í vinnuna og jafnvel sofa pínulítið af og til.

Ég er næstum viss um að hann langar ekkert í blóm. Hann er svona meira fyrir mótorhjól en ég á ekki fyrir því. Auk þess yrði það áreiðanlega frekar mikið bögg fyrir hann ef ég kæmi með nýtt mótorhjól á hverjum degi og ekki vil ég gera Harley afbrýðisaman.

Það hlýtur að vera til kærastauppeldisaðferð sem er áhrifaríkari en eitt lamað takk og raunhæfari en nýtt mótorhjól. Ég læt ykkur vita þegar ég er búin að finna hana.

Svæfð

-Ég ætla að koma þeim í bólið og svo kem ég strax upp, segir Pegasus. Ég reikna ekki með að það taki hann langan tíma að klappa Harley litla og kyssa Corvettu svo ég býð ekki góða nótt þótt ég sé svo þreytt að ég gæti sofnað á gólfi þessa risastóra dótakassa. Halda áfram að lesa

Ííííík

Hnakkus?

Nei, rassgat!

Ég hef aldrei lagst í djúpar pælingar um fólkið á bak við þá netpenna sem kjósa að gefa ekki upp nafn enda harla ólíklegt að ég þekki þá hvort sem er. En nú hef ég ástæðu til að halda að ég hafi átt þó nokkuð náin kynni við Hnakkus og þá allt í einu finnst mér það skipta máli.

(Síðar komst ég að því að þetta var alger misskilningur hjá mér)

Spurning

Ég hef hingað til verið höll undir þá skoðun að heimskingjum reynist öðrum auðveldara að vera hamingjusamir. Nú er ég farin að halda að tengslin séu kannski öfug.

Einhversstaðar las ég að greindarvísitala kvenna lækkaði töluvert við barneignir. Sjálf er ég frekar greindarskert þessa dagana og hef þó ekki, svo mér sé kunnugt allavega, eignast barn í meira en 18 ár.

Getur verið að hamingjan sé forheimskandi?