Þegar maður á lífsblóm þá byggir maður hús

Hver hefur verið besti vinur þinn? sagði hann og biturðin sem hann afneitaði skein í gegn.

Það er allt í lagi að vera bitur elskan. Það er bara mannlegt.

Svo ég svari þér; ég hef kynnst nokkrum mönnum sem ég hef um tíma litið á sem besta vin og sem hafa margsagt mér að ég sé besti vinur sinn. Það er góð tilfinning. Dettur samt dálítið harkalega í gólfið þegar besti vinurinn segir manni að hann sé að fara að búa með einhverri konu. Mér finnst voða skrýtið að giftast einhverjum öðrum en besta vini sínum.

Vinátta, (og það sama gildir um ástarsambönd enda bitamunur en ekki fjár á þessu tvennu) er ekki sjálfsprottin, heldur tengsl sem þarf að styrkja og næra. Ég er satt að segja orðin óskaplega þreytt á því að styrkja og næra sambönd við menn sem vilja náið samband en hafa samt ekki tíma fyrir mig nema þrisvar í mánuði. Sem vilja búa með einni konu en lifa tilfinningalífi með annarri, búa með einni konu en sofa hjá annarri, sofa hjá einni konu en lifa kynlífi með annarri o.s.frv.

Ætli besti vinur þinn sé ekki bara sá sem oftast mætir mikilvægustu þörfum þínum. Ekkert rómantískt við það, bara köld rökvísi.

Ég efast ekkert um ást þína. Málið er bara að það er alveg sama hversu heitt þú elskar eilífðarblómið þitt, ef þú setur blómapottinn niður í kjallara og gleymir honum þar á meðan þú stundar garðyrkjustörf í öðrum löndum, þá skaltu ekkert vera hissa á því þótt blómið þitt sé bara steindautt þegar þú kemur aftur.

Ég elska þig líka ósköp mikið. Ég sé samt enga ástæðu til að elska ekki einhvern annan meira. Sérstaklega þegar það er einhver sem setur blómið út í glugga og vökvar það reglulega.

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Þegar maður á lífsblóm þá byggir maður hús

 1. ————————————-

  Ég kemst samt ekki yfir það að fá alltaf hroll þegar ég les þessa tilvitnun í Bjart.

  Posted by: Unnur María | 23.11.2007 | 10:34:36

  ———————————–
  ég er í því að samgleðjast…á svo marga vegu:)

  Posted by: baun | 24.11.2007 | 16:29:52

  ———————————–

  ég hef ákveðið að koma upp um fávisku mína í sögulegum skáldskap. Hvaða tilvitnun í Bjart ?

  Posted by: Drengurinn | 25.11.2007 | 6:05:19

  ———————————–

  Þetta er tilvitnun í Sjálfstætt fólk eftir Laxness.

  Posted by: Þorkell | 25.11.2007 | 7:12:23

  ———————————–

  Bjartur var tilfinningalega lokaður, alger durtur. Einu tilfinningarnar sem hann viðurkenndi var ást hans á fósturdóttur sinni. Hann gerði það að markmiði lífs síns að byggja hús handa henni. Það mistókst að vísu og hann rústaði sambandi þeirra árum saman út á kjánalegt stolt en rauði þráður sögunnar er þessi; ef þú leggur ekki rækt við það sem þú elskar er ekkert annað neins virði.

  Posted by: Eva | 25.11.2007 | 11:21:11

Lokað er á athugasemdir.