Eitt erindi um afbrýðina

-Eftir á að hyggja hefði ég kannski ekki átt að segja þér þetta.
-Nú?
-Ég hefði kannski átt að reikna með möguleikanum á að þér þættu það ekki meðmæli.
-Mér finnst meðmæli að vita hvar ég hef þig.
-Þannig að þér er alveg, alveg hundraðprósent sama?

-Það er nú ekki beinlínis eins og ég sé björt mey og hrein sjálf. Ég segði væntanlega ekki opinskátt frá mínum eigin bólförum í gegnum tíðina á internetinu, ef ég væri að leita að maka sem hefði aldrei kennt kvenmanns á undan mér.
-Nei, líklega ekki. Ég var bara að hugsa um hvort það hefði kannski verið fljótfærni af mér að segja þér það án þess að gera ráð fyrir að þér gæti þótt það óþægilegt. Þegar allt kemur til alls hef ég eiginlega ekki þekkt þig nógu lengi til að vita hvort verður auðveldlega afbrýðisöm og ef svo er þá vil ég ekkert angra þig með einhverju sem skiptir engu máli.
-Uhh! Ég hef nú nokkuð góða ástæðu til að trúa því að þú ætlir vera með MÉR á næstunni, svo það hljómar ekki sérlega rökrétt að vera afbrýðisöm út einhverja sem þú ert löngu hættur að sofa hjá.
-Nei, það er gott að þú hugsar þannig.

Samt er eins og broddurinn á kætinni sé ponku-aðeins-örlítið rispaður. Líkt og bregði fyrir ofurlitlum votti af efasemdum um hversu frábær afstaða mín sé. Hvað er eiginlega að gerast í hausnum á honum núna? Er hann í alvöru hræddur um að sitja uppi með afbrýðisama kærustu? Hefur hann virkilega áhyggjur af því að ég muni yfirheyra hann um hvert fótmál og fara í fýlu ef honum verður það á að brosa til annarra kvenna? Rassgat nei, hann er búinn að lesa marga mánuði, ef ekki ár, af vefbókinni minni. Hann getur fjandakornið ekki verið svo lélegur mannþekkjari að halda að ég sé sú týpa. Hvað er hann þá að pæla? Hann hefur þó ekki öfugar áhyggjur? Hrmphhh… það skyldi þó ekki vera? Hugsanlega. Það er ekki að ástæðulausu sem amma kallaði mig stundum freðýsu og ef er erfitt að eiga maka sem er geðveikur af afbrýðisemi, þá er beinlínis áþján að elska einhvern sem kærir sig kollóttan um það hvar maður er og með hverjum.

Ég hef aldrei verið með óhóflega afbrýðisömum manni. En ég þekki hitt. Einu sinni fór ég með manninum mínum þáverandi á árshátíð. Hann var á fanatíska skeiðinu í lífi sínu og fékk grænar bólur við tilhugsunina um að vera innan um drykkjusvall svo það var fyrirfram á hreinu að hann ætlaði að fara heim eftir matinn. Allir sáttir við það. Hann var algerlega laus við afbrýðisemi og mér fannst bara fínt að geta skemmt mér með vinnufélögunum án þess að hafa áhyggjur af því að hann færi að ímynda sér einhverja vitleysu. Samt varð ég nett móðguð þegar hann kvaddi vingjarnlega og fór, án þess að veita því nokkra athygli að annar maður (að vísu bæði ljótur og leiðinlegur en karlmaður samt) var að búa sig undir að slefa á öxlina á mér. Ég var 21 árs, í rauðum og svörtum ómægod-kjól og brjóstin á mér tveimur númerum stærri en í dag. Ég hef aldrei leikið þann hallærislega leik að gera einhvern afbrýðisaman viljandi en í þessu tilviki sveið mér athyglisbresturinn svo illa að kannski ég hefði tekið undir daðrið í dónanum ef hann hefði ekki verið svona helvíti leiðinlegur. Mér fannst bara að það hefði verið viðeigandi, já eiginlega bara rétt af mínum manni að sýna ómægod-kjólnum og innihaldi hans þá virðingu að senda gaurnum stingandi augnaráð og sitja sem fastast, þar til hann hefði fært sig svosem eins og tungulengd frá mér.

Kannski er það það. Og hvað á maður þá að segja? Mér finnst ég hafa töluvert að missa en það er engin ógn í sjónmáli og það kann varla góðri lukku að stýra að gera sér upp tilefnislausa afbrýðisemi. Auk þess held ég alls ekki að hann vilji að ég sé afbrýðisöm og líklegt að hann hafi frekar óljósa hugmynd um það sjálfur hversvegna hann er eiginlega að velta hugsanleika afbrýðisemi minnar fyrir sér.

Hef ég einhverntíma verið afbrýðisöm? Fokk já. Ég hef þjáðst af afbrýðisemi, kvalist af afbrýðisemi. Ég hef ælt af einskærri afbrýðisemi. Ældi galli ofan í Öskjuhlíðina eftir að ég kom að hinni konunni þar sem hún var að lesa ástarbréfin sem ég hafði skrifað mesta skíthæl sem ég nokkurntíma hef elskað. Að vísu angraði tilvist hennar mig ekki lengi, enda var hún bæði heimsk og leiðinleg og hann átti það skilið að sitja uppi með hana. Öllu lengri urðu eftirköstin nokkrum árum síðar þegar ég hitti nýju kærustu annars manns sem ég elskaði líka af tilefnislausu. (Það var áður en ég kom mér upp fávitafælu) Hún var yngri, fallegri, fyndnari, grennri og greindari en ég, og ég skildi fullkomlega hvað hann sá við hana. Í það skipti þurfti ég að blása í áfengismæli til að hreinsa mig af grun um að utanvegaruppköstin stæðu í sambandi við ölvunarakstur.

Jamm, það eru sumsé ekki örlög mín að hlaupa í spik, svo er geðbólgu minni fyrir að þakka. Ég bara æli ef eitthvað angrar mig. Ég hef hinsvegar haft nóg annað til að dramakastast yfir þótt ég hafi ekki nært tilefnislausa afbrýðisemi með hugarórum um það sem kannski gæti skeð, svo hverju á maður að svara?

-Afbrýðisemi kemur upp í öllum samböndum í einhverri mynd, segi ég. Afbrýðisemi er ekkert annað en óttinn um að einhver annar sé að taka eitthvað mikilvægt frá manni og það er bara mannlegt að velta því fyrir sér. Það góða er að maður getur valið um hvort maður nærir þennan ótta, veltir sér upp úr honum og gerir hann að vandamáli, eða hvort maður gengur úr skugga um að hann sé tilefnislaus og tekst svo á við hann. Ég er svona meira fyrir það og á meðan þú sinnir mér svona vel og lætur ekki eins og þú hafir eitthvað að fela, þá hef ég enga ástæðu til afbrýðisemi. Þegar ég finn fyrir einhverju slíku skal ég bara segja þér það. Ég fer ekki í fýlu upp úr þurru.

Hann sagði bara gott. Ekkert meira en það. Ekki upphátt allavega en rispan var horfin úr röddinni. Ég spurði hann ekki hvað hann hefði verið að hugsa. Það skiptir heldur ekki máli hvort það var nákvæmlega þetta eða eitthvað allt annað. Stundum bara veit maður að maður hefur sagt eitthvað rétt.

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Eitt erindi um afbrýðina

  1. ———————————————

    „ómægod-kjóll“

    Dásamlegt!!! 🙂

    Posted by: Þorkell | 21.11.2007 | 1:45:26

    —   —   —

    Þú ert bara yndislegust (skrítið orð)

    Posted by: Hulla | 21.11.2007 | 7:56:12

Lokað er á athugasemdir.