Lúxuskrísa

Af og til lendi ég í ægilegri krísu yfir tenglastefnunni minni.

Tenglar á persónulegri vefsíðu geta nefnilega þjónað margvíslegum tilgangi. Þeir geta sagt eitthvað um eiganda síðunnar. T.d. hverja maður þekkir, hvað vekur áhuga manns og hverskonar vefbækur höfða til manns.

Þeir gefa þeim sem maður tengir á ákveðin skilaboð; ég tengi á þig, það merkir að mér líkar við þig janfvel þótt þú sért ekki spes penni, eða ég tengi á þig þótt ég þekki þig ekki, það merkir að mér finnst vefbókin þín áhugaverð.

Tengill þarf ekki endilega að merkja að maður lesi það sem er á bak við hann. Það skal enginn segja mér að fólk sem er með 70 tengla á síðunni sinni lesi svo mörg blogg reglulega. Tengill getur þannig verið tákn um vinsemd, ég tengi á þig og þú á mig, jafnvel þótt við lesum ekki hvort annars blogg, bara svona til merkis um að það fari nú samt vel á með okkur. Þeir geta haft auglýsingagildi; hér er athyglisverður pólitíkus/listamaður/fyrirtæki/hreyfing.

Gallinn er sá að ef tenglarnir eru of margir, ranna þeir saman í kraðak. Lesandinn missir sjónar á tilgangnum og þar með er tilgangurinn horfinn. Og ef maður vill sneiða hjá því að vera með 5 tengla sem skipta mann máli innan um 100 aðra sem eru ekki sérlega mikilvægir, þá þarf maður að taka ákvarðanir sem eru ekki eins auðveldar og ætla mætti. Vefbækur skipta sumt fólk mjög miklu máli og heiðarleiki og góðmennska fara ekki alltaf saman.

Hversu lengi á maður að halda tengli á vefbók sem er ekki uppfærð nema þrisvar á ári?
En hvað ef þær fáu færslur eru alger snilld?
Eða ef það er einhver sem maður elskar út af lífinu?

Hvað á maður að gera við bloggara sem manni þykir vænt um ef hann er svo slæmur penni að mann verkjar í heilann við lesturinn en er samt afar hrifinn af eigin skrifum? Væri maður ekki særa hann með því að taka tengilinn út?

Hvað gerir maður við tengil á blogg sem var einu sinni uppáhalds en er það ekki lengur?

Hvað gerir maður við tengil á bloggara sem er þrusugóður penni en skrifar eingöngu um eitthvað sem maður hefur engan áhuga á?

Hvað gerir maður ef maður á 10 uppáhaldsbloggara og 9 þeirra eru karlmenn?

Hvernig raðar maður tenglum? Í stafrófsröð? Eftir því hversu oft síðurnar eru uppfærðar? Eftir því hversu náið samband maður á við bloggarann? Eftir því hversu mikilar mætur maður hefur á hverri síðu?

Hvaða heiti gefur maður tenglunum. Á maður að nota nafn höfundar, dulnefni sem höfundur notar á netinu, titilinn á vefbókinni, vefslóðina, gælunafn sem maður býr til sjálfur?

Þetta er svona dæmi um lúxusvandamál. Ég held að ég reyni bara að njóta þess að hafa ekkert alvarlegra til að armæðast yfir.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Lúxuskrísa

  1. ——————————–

    Þín síða- þú gerir það sem þú vilt við hana….en ert án efa búin að vekja upp einhvern efa,smá óöryggi og öðrum vandræðagangi hjá einhverjum.;-)

    Ég raða persónulega upp eftir nennu og stuði….sumt gleymist svo líka bara. Einu sinni átti ég engan tengil og engan lesanda…og mér var alveg sama, enda vefbókin mín- fyrir mig – fyrst og fremst.
    Afsakið ræpuna.

    Posted by: lindablinda | 26.11.2007 | 19:08:04

    —   —   —

    Ég var einmitt að taka til í tenglunum mínum, henti til dæmis út tveimur af börnunum mínum (sem hafa ekki skrifað þarna í meira en ár) ásamt slatta af öðrum ofurletibloggurum.

    Reyndar les ég meira en 100 blogg að staðaldri, en með því að hafa þau á rss lesara, væri bilun að fara í gegn um listann á hverjum degi. Læt tæknina um það fyrir mig…

    Posted by: hildigunnur | 26.11.2007 | 19:39:31

    —   —   —

    Ég hef aldrei haft uppi tenglalista og mun aldrei gera vegna þess að ég nenni ekki tenglapólítíkinni. Mér finnst hún flókin. En ég reyni að vera dugleg að linka á vini og komennta hjá þeim og þegar ég kann að meta blogg úti í bæ kvitta ég yfirleitt reglulega fyrir lesturinn. Það er annars fyndið þú skulir skrifa um þetta því ég var í dag í viðtali hjá þjóðfræðinema sem er að skrifa um blogg og hún spurði mig akkúrat að þessu. Varst þú nokkuð líka í viðtali Eva? 🙂

    Posted by: Unnur María | 26.11.2007 | 20:01:24

    —   —   —

    Nei, ég var ekki í viðtali. Skemmtileg tilviljun samt.

    Posted by: Eva | 26.11.2007 | 22:35:52

    —   —   —

    Það hefur þá kannski eitthvað legið í loftinu í dag sem hefur hvatt fólk til tengslamyndunaríhugunar? 🙂

    Annars hef ég alltaf ætlað að þakka fyrir linkinn. Hann strýkur egóið mitt afar ljúflega.

    Posted by: Unnur María | 27.11.2007 | 0:13:32

    —   —   —

    Mikið skil ég vanda þinn vel. Sjálfur stóð ég frammi fyrir þessum vanda og ákvað þá að halda bara því sem ég les reglulega (innan við 10).

    Ég skal samt játa að ég hefði orðið sár ef þú hefðir kastað tenglinum mínum 🙂

    Posted by: Þorkell | 27.11.2007 | 5:09:18

    —   —   —

    Það er mér mjög að sársaukalausu þó þú hendir út tenglinum á mig – ég er jú ekki að blogga rassgat. Ef þú síðar verður vör við að ég sé byrjaður að nýju og finnst það þess virði að vísa á – nú, þá vísarðu á það!

    Posted by: Jón Kjartan Ingólfsson | 27.11.2007 | 23:09:36

Lokað er á athugasemdir.