Belgíska Kongó

Við Pysjan fórum að sjá Belgíska Kongó í kvöld. Drottinn minn dýri hvað ég skemmti mér vel. Átti von á góðu en þetta var alveg óborganlegt. Ætlaði reyndar að eyða laugardagskvöldinu með stráknum en Sigrún bað mig að vinna með sér á laugardagskvöldið svo ég samdi við hann um að við færum frekar í leikhús í kvöld og að þeir Snorri gætu þá verið saman á laugardagskvöldið. Hann var hæstánægður með það og ég verð að segja að ég er fegin því annars hefði ég líklega misst af þessu frábæra stykki. Bara ein sýning eftir og ég hvet alla til að fara á lokasýninguna.

Heldurðu að ég viti ekki hvað ég er að gera?

Pysjan er kominn með leyfi til æfingaaksturs. Finn hvernig ég breytist í teiknimyndafígúru um leið og hann rykkir af stað. Finnst eins og hárið á mér sé vírbursti, augun glennast ósjálfrátt upp og ég yrði ekki hissa þótt kæmi í ljós að þau séu fest í tóttirnar með gormum, munnurinn hrepist saman og ég hreinlega ræð ekki við röddina, æpi upp þvert gegn ásetningi mínum þegar hann, svellkaldur, lætur sig vaða inn í hringtorg þvert fyrir ljósgráan Pajero, hreinan og með virðuleg jakkaföt við stýrið. Ég hef ekki orðið svona hrædd síðan ég sat í bíl með Borghildi systur minni síðast. Halda áfram að lesa

Bréf frá ömmu

Jæja skrattakollur

Þá er amma nú búin að gera viðeigandi ráðstafanir til þess að þú fáir enduruppeldi, ekki veitir af. Ég geri mér að vísu ekki vonir um að þú verðir húsum hæfur alveg á næstunni en ef við náum þeim árangri að þú opnir glugga til að lofta út þegar þú ert búinn að kúka svona mikið í buxurnar þínar, þá er stórum áfanga náð.

Þetta verður semsé þannig að næst þegar þú skítur yfir annað fólk, ætlar góða konan að koma og láta þig þrífa bjakkið. Það verður ekkert sérlega skemmtilegt svo þú ættir kannski að æfa þig svolítið í almennri kurteisi. Annars gætirðu þurft að moka út heilum fjóshaug eftir nokkrar vikur og góða konan getur orðið voða ströng. Þú gætir líka unnið þér inn stig með því að senda síðasta fórnarlambi skriflega fyrirgefningarbeiðni.

Við skulum svo bara vona að þér gangi vel að læra þína lexíu því annars verður amma að sækja vöndinn. Og því get ég lofað að þá verður skrattanum ekki skemmt.

Komin niður

Held ég sé að koma niður af þessu vellíðunarflippi sem ég hef verið á undanfarið. Ekki svo að skilja að mér líði neitt illa. Meira svona hlutlaust. Eða frekar svona eins og ponkulítið eirðarleysi sé að byrja að springa út innra með mér. Mér leiðist eitthvað svo og skýringin er ekki sú að mig vanti félagsskap eða hafi ekkert að gera. Mig langar bara að hitta einhverja aðra en þá sem eru í boði og gera eitthvað annað en það sem liggur beinast við. Veit samt ekki hvað. Svo langar mig í phenylethilamin, heilt kíló en vil samt ekki þurfa að gúlla í mig 10 kg af súkkulaði. Halda áfram að lesa

Skýrsla

Mig langar í hreindýr. Eyddi öllum morgninum í að þrífa en nú er ég líka búin að skila sameigninni og er laus við hana næstu 6 vikurnar. Þegar ég varð þrítug sagði ég að ég hefði sett mér það markmið að vinna engin heimilisstörf eftir fertugt, nema þá að elda þegar og ef mig sjálfa langaði til þess. Setti upp plan; ætlaði að eignast heimilistæki, eitt á ári, fyrst þurrkara og svo eitt af öðru og enda á heindýri.

Síðan hefur mest lítið gerst í þeim efnum. Hef ekki ekki einu sinni fjárfest í hrærivél. Ég er að hugsa um að breyta planinu, hlaupa yfir græjurnar og fara beint í hreindýrið. Vera búin að fá mér hreindýr áður en ég þarf að sjá um sameignina næst.

Sá lokaæfinguna á Patataz í dag. Átti reyndar von á góðu þar sem Björn stórvinur minn og skrifnautur er annarsvegar en svo virðist sem allir aðrir sem koma að sýningunni séu líka hæfileikafólk svo útkoman er tvímælalaust þess virði að sjá hana tvisvar. Tók Kára minn með og við erum svo búin að hanga yfir kaffibolla síðan.

Bréf til Dramusar

Sæll Dramus

Ég á reyndar ekkert óuppgert við neinn en taldi nokkuð víst að Dramus væri „sumir“. Tek þessu sem yfirlýsingu um að svo sé ekki. Þar sem þú hefur ekki kynnt þig ætla ég ekki að biðjast forláts á þeim misskilningi en skal hugleiða möguleikann á því að yrkja eitthvað fallegra til þín þegar og ef þú stingur nefinu út úr skápnum.

Ólíkt töluðum orðum er hægt að breyta því sem maður skrifar inn á bloggið en ég ætla nú samt ekki að eyða síðustu færslu eða breyta henni. Ef ég gerði það stæðu skrif mín ekki undir nafninu sýndarveruleikaraunsæi.

Óður til Dramusar

Þetta eru í hjörðum þínar kýr og ær
að þekja með lambaspörðum eða dellu
hverja þá slóð sem hörð er fæti nær.

Saur hef ég vaðið áfram síðan þá
og samt hef ég út á hlaðið skóna borið
og hirði ekki um aðra, hvað þeir segja og sjá.

Og veðrið er blítt og þú ert engin þruma
og þessvegna hugsa sumir lítt um suma.

Pissssssssstill handa manninum sem skeit í bælið sitt

Sæll Skíthæll
(athugaðu að ég nota þetta ávarp ekki af léttúð)

Ég reikna ekki með að þú hafir lesið fornsögurnar (eða ef út í það er farið nokkuð menningarlegra en Hustler) en kannski þú ættir nú á gamals aldri að gerast svo metnaðarfullur að rýna ögn í þær og reyna að átta þig á því hversu miklum vinsældum svonefndir ójafnaðarmenn áttu að fagna til forna. Halda áfram að lesa

Rökfimi Pysjunnar

Þegar ég var lítil og vildi ekki makkarónugrautinn minn eða eitthvað álíka ógeð, var pabbi vanur að halda fyrirlestra um beinkröm og önnur einkenni næringarskorts og minna mig á svöngu börnin í Afríku. Ég sem var ekkert vannærð trúði svona passlega á að beinkröm stafaði af skorti á volgum spónamat með mjólkurskán fljótandi ofan á. Halda áfram að lesa

Makaleit

Var beðin um pistil fyrir nýjan veiðivef, makaleit.is fékk pening fyrir hann og allt. Vííí!

Fyrsti textinn sem ég sýndi þeim þótt samt of dónalegur til að vera birtingarhæfur á svona siðprúðum vef. Að vísu engin klúryrði eða neitt svoleiðis svo mér dettur helst í hug að hrifing mín á Elijah Wood hafi þótt merki um hobbitablæti eða álíka pervasjón. Mér skilst að þetta sé vefur fyrir fólk sem hugsar ekki um kynlíf og svoleiðis dónaskap. Vill bara haldast í hendur og tala um ástina eða eitthvað í þá veru. Allt efni stranglega ritskoðað og enginn dónaskapur umborinn. Kannski hugsanlegt að þar sé hægt að kynnast karlmanni sem er ekki haldinn krónískri skuldbindingarfælni en ég held samt ekki að ég skrái mig þarna. Fíla bara ekki ritskoðun. Heldur ekki á efni þar sem hvergi er minnst á Elijah Wood og álíka dónaleg fyrirbæri.

Útsölukjóll

Í maí 2004 mátaði ég kjól. Hann passaði mér næstum því alveg, hefði bara þurft einn lítinn smásaum, bara örfá spor til að hann yrði fullkominn. Ég var að hugsa um að borga inn á hann en gerði það ekki. Var svo viss um að engin önnur gæti notað hann. Veit ekki hvað ég var að horfa á í borg þar sem allt morar af litlum gulum konum sem virðast hafa meðfædda hæfileika til að finna þessar fáu flíkur sem til eru í mínu númeri. Ég stofnaði hins vegar bankabók sem ég greiddi inn á svolitla upphæð, bara pínupínulítinn hluta af verðinu sem ég fékk fyrir húsið mitt. Halda áfram að lesa

Bara heilbrigt

Ég hef haft svo miklar áhyggjur af Pysjunni minni. Hann hefur verið frekar einangraður félagslega alveg síðan hann var 8-9 ára. Hann eignaðist ekki stóran vinahóp þegar hann var krakki, átti kannski 1-2 vini og ekkert endilega krakka sem hann hafði greiðan aðgang að. Hann var bara einn ef þeir voru ekki til staðar og hafnaði samskiptum við önnur börn nánast algerlega. Síðustu 2 árin hefur hann bókstaflega engan félagsskap haft af skólafélögunum sínum utan skólans og í raun ekki umgengist jafnaldra sína neitt. Halda áfram að lesa

Sýndarveruleikaraunsæi

Ég er búin að bæta Yfirnorn Naflalóar á tenglalistann.

Reyndar hélt ég lengi því plani að setja ekki inn tengla á aðra en þá sem koma við sögu en þar sem flestir þeirra sem hafa fengið tengil hjá mér eru óttalegir bloggletingjar og ég hef auk þess fundið nokkra snillinga sem eru svo skemmtilegir að ég lít á síðurnar þeirra vikulega eða oftar, er ég að endurskoða þessa stefnu. Halda áfram að lesa

Ampop

Strákarnir í Ampop stóðust væntingar. Ég hef ekki farið á tónleika með þeim fyrr en mun áreiðanlega gera það oftar. Hef heldur ekki heyrt Hæfileikarann spila á flautu fyrr og það eitt út af fyrir sig hefði nægt mér til að finnast kvöldið þess virði að mæta. Reyndar var reykurinn farinn að rífa í þegar þeir Ampopparar hófu sitt prógramm enda mætti ég um leið og Hraun byrjaði að spila. Halda áfram að lesa