Í maí 2004 mátaði ég kjól. Hann passaði mér næstum því alveg, hefði bara þurft einn lítinn smásaum, bara örfá spor til að hann yrði fullkominn. Ég var að hugsa um að borga inn á hann en gerði það ekki. Var svo viss um að engin önnur gæti notað hann. Veit ekki hvað ég var að horfa á í borg þar sem allt morar af litlum gulum konum sem virðast hafa meðfædda hæfileika til að finna þessar fáu flíkur sem til eru í mínu númeri. Ég stofnaði hins vegar bankabók sem ég greiddi inn á svolitla upphæð, bara pínupínulítinn hluta af verðinu sem ég fékk fyrir húsið mitt.
Ég sagði honum ekki frá því. Hvorki frá kjólnum né bankabókinni. Við vorum ekkert farin að ræða dagsetningar og svo stóðum við í framkvæmdum og flutningum og auk þess var ég bara ákveðin í því að í þetta eina skipti á ævinni skyldi ég kaupa eitthvað sem mig langaði verulega mikið í, án þess að láta verðið stöðva mig. Kaupa fyrst og spyrja svo.
Þegar pabbi spurði hvað hann ætti að gefa mér í afmælisgjöf sagði ég að það væri kannski asnalegt að gefa fullorðnu fólki peninga en satt að segja kæmi það sér best.
-Ég er að safna fyrir dálitlu sem maður gerir ekki ráð fyrir að eignast nema einu sinni á ævinni, sagði ég. Og pabbi leit í kringum sig, horfði á óreiðuna í eldhúsinu, bókakassana mína á stofugólfinu, verkfærin á borðinu, byggingarefnið úti á stétt, lúinn stigann upp á loftið. Hann sagði ekkert en ég vissi hvað hann var að hugsa. Var að hugsa um að ef ég sætti mig við þessar aðstæður væri ég annað hvort galin eða ástfangin, nema hvort tveggja væri. Hann gaf mér peninga í afmælisgjöf, tvöfalt þá fjárhæð sem hann hefur venjulega notað til afmælisgjafakaupa. Ég lagði peningana inn á bókina og fór aftur og mátaði kjólinn. Hann passaði ennþá.
Svo var allt í einu allt búið og þá kom sér reyndar vel að eiga þessa peninga. Ég eyddi þeim í nokkra tíma hjá fjölskylduráðgjafa sem þvert á það sem ég hefði viljað (á þeim tíma) sagði ekkert um að ég ætti bara að taka mína dúnsæng, tannbursta og orðabækur og koma mér heim til mannsins míns aftur, heldur gekk út að glugganum og spurði, eins og annarshugar hvort mér hefði nokkuð dottið í hug að þessi einkennilega uppákoma sem þá hafði kollvarpað veröld minni með kjól og öllu saman, tengdist kannski áfengisneyslu Húsasmiðsins á einhvern hátt. Ég spurði hann fremur kuldalega hvort hann hefði fundið þá þægilegu leið að afgreiða skjólstæðinga sína með alkóhólisma í hvert sinn sem hann fengi spurningar sem hann gæti ekki svarað. Hann svaraði mér ekki. Spurði bara hvað maðurinn minn hefði gefið mér í afmælisgjöf. Satt að segja hafði ég ekki fengið afmælisgjöf.
Gekk af tilviljun fram hjá búðinni í dag og álpaðist inn, ekki veit ég hvers vegna. Hann er óseldur, kjóllinn minn, kominn á útsölu og það sem meira er, ég á fyrir honum. Að vísu þyrfti ég þá að fá að skipta visagreiðslunum en annað eins hefur nú gerst.
Ég mátaði hann ekki. Skipti bara í töffaða gírinn, reyndi að hugsa sem svo að það væri nú aldeilis heppilegt að ég hefði ekki borgað inn á hann á sínum tíma og ennþá heppilegra að ég hefði ekkert með hann að gera í dag. Það mistókst einhvernveginn og ég var ekkert kúl heldur bara í uppnámi. Ég keypti samt ekki kjólinn, keypti bara mjólkurpott og þambaði hann í bílnum á leiðinni heim.
Veit ekki hvern andskotann ég er að sýta. Varla kjól sem ég hef ekkert með að gera. Kannski hugmyndina sem hann stendur fyrir. Varla manninn sem sagði „nei ég er ekkert að djóka, viltu það?“ og vissi ekki einu sinni að ég hefði mátað kjóla þegar kom í ljós að líklega var ég samt sem áður, ekki einu sinni djók, bara eitthvað svona allt í plati.